Sjávarleður hlýtur hvatningarverðlaun
Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) veitti Sjávarleðri hf. á Sauðárkróki árleg hvatningarverðlaun til fyrirtækis á starfssvæði samtakanna fyrr í sumar. Hvatningarverðlaun SSNV – atvinnuþróunar, hafa verið veitt frá árinu 1999 og eru þau í senn hvatning til áframhaldandi starfsemi og viðurkenning fyrir góðan árangur.
Sjávarleður hlýtur verðlaunin vegna þess frumkvæðis og framsýni sem stjórnendur og starfsmenn hafa sýnt við uppbyggingu fyrirtækisins og þróunar á gæðavörum sem orðnar eru eftirsóttar innan lands og utan. Sjávarleður var stofnað árið 1995 en stærstu eigendur fyrirtækisins eru Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Norðurströnd á Dalvík og Gunnsteinn Björnsson framkvæmdastjóri félagsins.
Fyrirtækið vinnur nú eitt fyrirtækja í Evrópu að sútun fiskroðs með þeim aðferðum sem þar eru notaðar. Ársverk hjá Sjávarleðri hf. eru sjö og vörur félagsins eru seldar um heim allan. Stærsti vöruflokkur félagsins er sútað fiskroð sem selt er til framleiðslu fatnaðar, skóbúnaðar og fylgihluta og hefur sjávarleðrið verið eftirsótt gæðavara. Þróun í litun og verkun hefur gert vöruna að ákjósanlegu hráefni í síbreytilegu framleiðsluumhverfi.
Vörur Sjávarleðurs eiga vaxandi velgengni að fagna sem hráefni í handverksvörur, fatnað, töskur, belti og skó, þar sem reynir á gæði vörunnar, sveigjanleika og úrval í framleiðslulínum samhliða metnaðarfullri þjónustu við viðskiptavini. Meðal þeirra fyrirtækja sem framleiða úr vörum frá Sjávarleðri má nefna Nike og Ecco. Á fáum árum hefur félagið náð verulegri aukningu í veltu og hefur undanfarin ár verið rekið með hagnaði.
Verðlaunagripurinn í ár er hannaður og unninn af Sigrúnu Helgu Indriðadóttur, listamanni og handverkskonu í Skagafirði. Gripurinn er skorinn út í leður sem límt er á tré.
Birt:
Tilvitnun:
Samtök iðnaðarins „Sjávarleður hlýtur hvatningarverðlaun“, Náttúran.is: 17. ágúst 2008 URL: http://nature.is/d/2008/08/17/sjavarleour-hlytur-hvatningarverolaun/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 24. maí 2009