Allmargir nýbakaðir foreldrar lenda í því að unginn þeirra fær magakveisu. Kveisa þessi er ekki hættuleg en veldur  barninu samt talsverðum óþægindum. Það er einnig þolraun fyrir foreldrana þegar barnið horfir biðjandi á pabba og mömmu og biður sífellt um hjálp.

En er þá ekkert hægt að gera? Jú, mikil ósköp, við magakveisum eru til ýmiss góð ráð. Hægt er að gefa dropa sem heima Minifom® og fást án lyfseðils í apótekum. Dropar þessir eyða mjólkurfroðu sem á það til að myndast í maganum og losa loft úr meltingarveginum. Hins vegar læknar Minifom® ekki kveisuverki endilega til fulls.

Að sjálfsögðu er æskilegt að allir foreldrar sem eru með kveisubörn tali við barnalækni til þess að fá góðar og nákvæmar ráðleggingar. Sé barnið að drekka þurrmjólk, getur þurrmjólkin verið ástæða magakveisunnar. Þurft getur að skipta um þurrmjólkurtegund eða jafnvel setja ungabarnið á mjólkurlaust fæði. Í öllum þessum tilvikum getur læknirinn ráðlagt foreldrunum hvað æskilegast er að gera í hverju tilviki fyrir sig.

En það er einnig hægt að róa börn með magakveisu og ungabörn yfirleitt með nokkrum einföldum aðferðum.

Maður er nefndur Harvey Karp og er bandarískur. Hann hefur skrifað bók sem heitir hamingjusamasta barnið í hverfinu (The happiest baby on the Block) og bent á nokkrar aðferðir til að róa ungabörn sem einfaldlega virka. Hugmyndin á bak við aðferðir þessar er að leyfa barninu að upplifa svipað umhverfi og það upplifði í móðurlífi. Fyrst er barnið vafið þétt inn í mjúkt teppi og síðan er það lagt á magann vegna þess að ungabörn liggja aldrei á bakinu í legi móðurinnar. Síðan er sagt shhh af talsverðum krafti til að róa barnið þar sem Karp heldur því fram að hávaðinn í móðurlífinu sé álíka mikill og stöðugt suð í ryksugu. Þess vegna eiga mörg ungabörn erfitt með að sofa í þögn en sofna hins vegar um leið og þú kveikir á ryksugunni eða ræsir bílinn. Að rugga ungabörnum eða sveifla þeim varlega getur einnig haft róandi áhrif.

Myndbönd sem sýna þessar aðferðir Karps má finna á You – Tube á slóðum eins og t.d. http://www.youtube.com/watch?v=G6KnVPUdEgQ eða http://www.youtube.com/watch?v=o_ryC-3tl14. Það merkilega er að ég prófaði þessar aðferðir á stráksa mínum í gærkvöldi þegar hann var með smá kveisu, og hann hreinlega sofnaði  alsæll í fanginu á mér. Þannig að aðferðir Harveys Karps  virka.  Og þótt barnið þitt sé ekki með kveisu þá hafa aðferðir Karps samt róandi áhrif á barnið og eru alveg skaðlausar. Hins vegar sé kveisan alvarleg er nauðsynlegt að vera í tengslum við góðan barnalækni.

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir

Birt:
31. janúar 2010
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Að róa ungabörn með magakveisu“, Náttúran.is: 31. janúar 2010 URL: http://nature.is/d/2010/01/13/ad-roa-ungaborn-med-magakveisu/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 13. janúar 2010
breytt: 15. janúar 2011

Skilaboð: