Íbúar Samsø sjálfum sér nægir um orku
Orð dagsins 19. ágúst 2008.
Íbúar á dönsku eyjunni Samsø hafa nú náð því markmiði sem þeir settu sér fyrir 11 árum, að verða sjálfum sér nægir með orkuöflun. Orkuþörf um 4.000 eyjarskeggja er nú mætt með nýtingu lífmassa, vindorku og sólarorku. Enn nota þó einhverjir olíu, en sala á endurnýjanlegri raforku til meginlandsins gerir meira en að vinna það upp. Verkefnið á Samsø hefur vakið mikla athygli á alþjóðlegum vettvangi og þangað koma fulltrúar víða að úr heiminum til að kynna sér málið. Að sögn Jørgens Tranberg, kúabónda og vindmyllueiganda á Samsø, þarf tvennt að vera til staðar í upphafi til að ná þessum árangri, þ.e.a.s. viljinn til að gera það og „get-það-hugsunarhátturinn“. Svo þarf auðvitað fjármagn. Eyjaskeggjar hafa sjálfir fjárfest mikið í vindmyllum og fleiri þáttum verkefnisins. Upphaflega vonuðust menn til að sú fjárfesting myndi skila sér innan 10 ára, en nú er útlit fyrir að endurgreiðslutíminn verði enn styttri.
Lesið frétt PlanetArk/Reuter í dag, skoðið frétt CBS á Youtube og fræðist um vinabæ Samsø á Íslandi
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Íbúar Samsø sjálfum sér nægir um orku“, Náttúran.is: 19. ágúst 2008 URL: http://nature.is/d/2008/08/19/ibuar-samso-sjalfum-ser-naegir-um-orku/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.