Í kjölfar funda um olíuhreinsunarstöð - Náttúruverndarsamtök Íslands
Ráðstefnan sem fór fram bæði á Bíldudal og Ísafirði var bþsna vel heppnuð. Ekki er deilt um að losun gróðurhúsalofttegunda myndi aukast mjög mikið ef byggð yrði olíuhreinsistöð í Dýrafirði eða Arnarfirði. Viðmið Íslenskrar hátækni eru þau lægstu sem um getur í Evrópu og töldu forsvarsmenn fyrirtækisins ótímabært að ræða slíkar tölur. Einnig þótti þeim ótímabært að ræða hvaða olíufyrirtæki Íslensk hátækni ætti í viðræðum við en þó var upplýst að um er að ræða rússnesk fyrirtæki.
Sú mótsögn kom fram í málflutningi olíuhreinsi-stöðvarmanna að þeir vissu ekki hvers konar hreinsistöð yrði reist fyrir vestan og þar með ekki hversu mikið af gróðurhúsalofttegundum hún myndi losa á sama tíma þeir héldu því fram að losunin yrði álíka mikil og er frá olíuhreinsistöðinni í Slangentangen í Noregi sem aðallega framleiðir dísilolíu. Á hinn bóginn, verði framleiðslan tæknilega flóknari, þ.e. fleiri afurðir (meiri bruni) þeim mun meira losar slík stöð af gróðurhúsalofttegundum. Ólafur Egilsson, annar eigendi Íslenskrar hátækni, sagði í viðtali við Blaðið (nú 24stundir) þann 18. ágúst 2007, að stöðin myndi framleiða „yfir tvö þúsund mismunandi afurðir.”
Gefur auga leið að slík stöð myndi losa miklu meira af gróðurhúsalofttegundum en sú norska í Slangentangen og því nær að miða við þá olíuhreinsistöð sem Statoil rekur í Mongstad í Noregi. Séu tölur þaðan notaðar sem viðmið myndi aukning í losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi verða um 40% miðað við árið 1990. Þarf því ekki að undra að Íslensk hátækni vilji fresta umræðu um þessi mál.
Bæði á Bíldudal og Ísafirði kom fram töluverð andstaða og gagnrýni á þessar hugmyndir Íslenskra hátækni og á Ísafirði gekk listi fyrir þá sem vilja taka þátt í að endurreisa Vestfirsk náttúruverndarsamtök. Töluverður áhugi virtist vera á því máli.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Í kjölfar funda um olíuhreinsunarstöð - Náttúruverndarsamtök Íslands“, Náttúran.is: 25. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/25/i-kjolfar-funda-um-oliuhreinsunarstoo-natturuvernd/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.