Árni Bjarnason, formaður Farmanna og fiskimannasambands Íslands víkur nokkrum orðum að mér og afstöðu minni til hvalveiða í Fiskifréttum þann 20. ágúst s.l. og spyr (svona í mestu vinsemd) hvort ekki sé allt í lagi með mig. Jú takk nafni, ég hef það ágætt, heyri enn og les vel gleraaugnalaust. Ég leyfi mér því að fullyrða að mikilvægi hvalveiða í þjóðhagsreikningum sé minna en þú vilt vera láta. Þá sleppi ég að ræða atriði á borð við CITES-sáttmálann, Alþjóðahvalveiðráðið, afstöðu erlendra ríkja til hvalveiðistefnu stjórnvalda og aðildarumsókn Íslands að Evrópðusambandinu. Skoðum dæmið.
 
Norðmenn gáfust upp á útflutningi
Sala hvalkjöts í Japan er nú miklu minni en hún var fyrir 25 árum síðan þegar útflutningur hvalkjöts héðan var umtalsverður. Framboð á hvalkjöti er nú mun meira en nemur eftirspurn og birgðir kjöts í frysti samsvara um eins árs neyslu.
 
Í október 2008 greindi japanska dagblaðið Ashai Shimbun frá því að dregið yrði úr veiðum í Suðurhöfum um 200 hrefnur vegna minnkandi eftirspurnar og mikils framboðs á kjöti.
 
Eftir heimsókn Kjell Magne Bondeviks, f.v. forsætisráðherra Noregs, til Japans í maí 2003 gáfu norskir hrefnuveiðimenn upp á bátinn áform sín um útflutning til Japans. Hrefnuveiðar þar í landi hafa dregist saman og fjöldi veiddra dýra í ár sá minnsti síðan 1996. Umræða um útflutning til Japans á sér ekki stað lengur.
 
Framboð á Japansmarkaði tvöfaldað
Eftir nokkurt hlé var langreyðarkjöt aftur í boði á Japansmarkaði í júlí 2006. Á næstu 36 mánuðum – fram til júlí í ár – nam framboðið 346 tonnum eða um 9,7 tonnum á mánuði. Þessi tala tekur mið af útflutningi Hvals hf. í fyrra en langreyðarkjöt frá Íslandi varð fyrst vart á markaði þar í maí s.l. Samkvæmt þessu eru efri mörk framboðs á langreyðarkjöti á Japansmarkaði 116,4 tonn á ári eða sem nemur afurðum af 13 langreyðum frá Íslandi. Nærri tvisvar sinnum það magn sem Kristján Loftsson flutti út í maí 2008.
 
Í ár hafa skip Kristjáns þegar veitt um 90 langreyðar eða um 13 sinnum meira magn en árið 2006. Það er sem nemur sjö sinnum árlegri neyslu á langreyðarkjöti í Japan. Og enn á Kristján eftir að fylla kvótann upp á 150 dýr. Takist honum það ætlunarverk sitt mun hann ellefufalda framboð af langreyðarkjöti á Japansmarkaði. Þá er ekki tillit tekið til þess að japanskir hvalveiðimenn hyggjast halda áfram veiðum á langreyði og selja á heimamarkaði. Geri þeir það gæfist rými fyrir um það bil 3 langreyðar frá Íslandi á Japansmarkaði árlega, sem er 30 sinnum minna magn en skip Kristjáns hafa þegar aflað.
 
Herferð fyrir aukinni neyslu mistókst
Um árabil hafa japönsk stjórnvöld reynt að blása lífi í markað fyrir hvalaafurðir með auglýsingaherferðum, útgáfu matreiðslubóka, ókeypis úthlutun á hvalkjöti til leikskóla og elliheimila o.s.frv. en allt án árangurs. Yfirvöld  lokuðu markaðsskrifstofu fyrir hvalkjöt eftir að henni mistókst að auka eftirspurn.
 
Nú skal viðurkennt að íslenskir viðskiptajöfrar kalla ekki allt ömmu sína í útrásinni en í ljósi hnignandi markaðar fyri hvalkjöt í Japan og þess að Japanar eru ekki hættir veiðum  á langreyði – þeir segja þvert á móti að þeir muni halda slíkum veiðum  áfram – verður að draga þá ályktun að markaðassetning Kristjáns Loftssonar á afurðum sínum verði bæði dýr og langvinn.
 
Að reyna hið ómögulega
Kristján Loftsson er því í vanda staddur. Hann gæti sótt inn á þann hluta markaðarins sem Japanir selja sitt langreyðarkjöt á og þannig ógnað stöðu heimamanna og hann gæti reynt hið ómögulega; að stækka markað fyrir hvalkjöt í Japan en þar hefur Japönum sjálfum mistekist. Báðir þessir kostir eru mjög kostnaðarsamir og útilokað að íslensk stjórnvöld séu þess nú umkomin að bæta við þær hundruðir milljóna króna sem hvalveiðar hafa kostað íslenska þjóðarbúið á undanförnum árum.
Birt:
3. september 2009
Höfundur:
Árni Finnsson
Uppruni:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Um markað fyrir hvalkjöt í Japan“, Náttúran.is: 3. september 2009 URL: http://nature.is/d/2009/09/03/um-markao-fyrir-hvalkjot-i-japan/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: