Í morgun um kl 9:47 var lokið við að koma tappanum fyrir í hliðarveggjum Jöklu, sem áður höfðu verið inngangur að hjárennslisgöngunum. Jöklustíflunin kallast þá að Hálslónsmyndun sé hafin. NFS sjónvarpaði beint frá atburðinum og hafa sjálsagt margir horft á stíflunina í beinni. Múgur og margmenni verkfræðinga, fyrirmanna Landsvirkjunar og Impreglio auk fréttamanna í tugatali, voru viðstödd athöfnina. Ábyrgðaraðilar virkjunarinnar sem eru að sjálfsögðu fyrst og síðast landsmenn hafa þó margir blendnar tilfinningar. Aðeins 38 tímum fyrir átöppunina tóku 3,5 - 5% þessara óviljugu ábyrgðaraðila þátt í Jökulsárgöngu með Ómari Ragnarssyni (mótmælagöngunni miklu) og reyndu með samstöðu sinni að forða því að tappinn yrði settur í. Ómar Ragnarsson segir okkur að það sé ekki allur skaður skeður þó að fái að seytla í lónið til vors, en að mikil barátta sé fyrir höndum að forða landinu frá þeim græðgisöflum sem hér séu að verki.
Sigurður Arnalds upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar sagði okkur grátklökkur í sjónvarpsviðtali að „vel og tryggilega yrði lokað fyrir, svo ekki væri nokkur leið að taka tappann nokkurn tíma úr“. Sigurður var enda sár yfir því að störf hans og annarra sem unnið hafa baki brotnu við virkjunina væru „niðurlægð“ með hugmynd Ómars. Enda líklega lengi verið hlakkað til þessarar stundar sem hátiðarstundar af framkvæmdaaðilum þó að hljóðið í mönnum á gjábakkanum væri þegar stundin loks kom, þó sveipuð dularfullum blæ sem gaf ekki tilefni til áberandi hátíðarhalda. Það er erfitt fyrir þá að loka augunum fyrir staðreyndum málsins sem er að þjóðin stendur „ekki einhuga á bak við þessar framkvæmdir“. Þó ætti enginn að áfellast mennina perónulega fyrir að hafa fengið ábyrgðarmikil störf hjá sínum vinnuveitendum. En hætturnar eru einfaldlega of augsýnilegar til að loka augunum, hvað ef t.d. hlaup yrði í Brúarjökli núna (einhverjir skrykkir hafa nú verið í gangi í Vatnajökli á síðustu dögum, og vatnsflaumurinn myndi fylla lónið miklu fyrr en áætlað var, og stífluveggurinn alls ekki tilbúinn hvað þá aðrennslisgöngin. Fyrir utan alla hina áhættuþættina sem ekki verða raktir hér.

 

Myndin er af sjónsvarpsskermnum heima hjá okkur kl. 9:47 þ. 28. 09 2006.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
28. september 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Tappinn kominn í - Hálslónsmálið“, Náttúran.is: 28. september 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/tappinn_kominn/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 2. maí 2007

Skilaboð: