Það er talið víst að áður en land byggðist var það þakið skógi og kjarri að stórum hluta. Um þetta vitna skógarleifar sem finnast víða um land og að minnsta kosti á einum stað í um 650 metra hæð yfir sjó. Um leið og farið var að ryðja land til akuryrkju og landbúnaðar, brenna skóginn til kolagerðar og nota hann til beitar, raskaðist jafnvægið og landeyðing hófst. Þar kom þó fleira til.
Sökum þess að land var skógi eða kjarri vaxið er til mikið af plöntum hér á Fróni sem kunna ákaflega vel við sig í hálfskugganum og skjólinu sem skógurinn veitir. Jurtaríkið er byggt þannig upp að það er lagskipt. Á botninum eru snemmblómstrandi plöntur sem nýta sér birtuna til blómgunar áður en trén laufgast. Svo tekur hvert lagið við af öðru þar sem, eftir því sem ofar dregur, hvert lag drekkur í sig meiri birtu þar til komið er að stóru trjákrónunum.
Á sama hátt er dýralífið í samskonar jafnvægi. Þar sem jafnvægi ríkir er nógu mikið af rándýrum sem lifa á plöntuætunum til að koma í veg fyrir að þær vinni skaða. Vegna sérstakra aðstæðna, oftast veðurfræðilegram geta að vísu komið upp tilfelli þar sem ein dýrategund vinnur mikinn skaða eins og t.d. þegar furulús herjar vegna sérlega milds vetrar. Hver hefur heyrt um úðun með skordýraeitri í stórum laufskógum, enda er það næstum óframkvæmanlegt. Þegar við skiðuleggjum garðana okkar og förum að vinna í þeim röskum við þessu jafnvægi á margan hátt. Ég er viss um að leyndardómurinn á bak við góðan garð er sá skilningur sem við höfum á því hvað truflar þetta jafnvægi og hvað ekki. Því meiri fjölbreytni, þeim mun ánægjulegri verður veran í garðinum. Nútíma aðferðir við garðvinnu trufla jafnvægið á neikvæðan hátt og fækkar úrvali þeirra dýra sem geta komist af í garðinum.
Lif og lát lifa segir máltæki sem gott er að hafa í huga við garðvinnuna. Hugsaðu þig vel um áður en þú drepur eitthvað í garðinum eða tekur það til. Ef þetta hljómar eins og skilaboð um að slappa af í garðinum, heyrirðu rétt. Hvers vegna að eyða öllum frístundum sumarsins í óþæga garðvinnu? Það nær ekki nokkurri átt. Þú átt að njóta garðsins á góðviðrisdögum, og reyndar hinum dögunum líka, en ekki eyða þeim með nefið ofan í jörð við að reyta arfa og annað illgresi. Ég viðurkenni að það geta að vísu komið upp þau tilfelli að einhver planta geri sér svo magnaða innrás úr garði nágrannans, eða annars staðar frá, að ekki sé hægt að komast hjá einhvers konar aðgerðum. Ef slík tilfelli koma upp skaltu gera þær ráðstafanir sem þarf að reyna að valda eins litlum usla og hægt er. Ef þú verður fyrir innrás skriðsóleyjar (Ranunculus repens) til dæmis, skaltu kaupa þér viðeigandi eitur eins og “Roundup” og aðeins eitra eitt blóm. Þar sem jurtin er oftast meira eða minna öll ein heils þarf oft ekki meira. Þú nærð henni allti á einu bretti. Roundup er hormónalyf sem berstu um alla plöntuna eftir æðakerfinu og niður í rótina og gerir það að verkum að plantan vex úr sér og fellur. En hafðu í hufa að Roundup er gjöreyðingarlyf og ekki hefur verið fullrannsakað hvaða langtímaáhrif það hefur í jarðveginum. Þó er talið að óhætt sé að neita ávaxta átta vikum eftir notkun lyfsins en niðurbrot þess í jarðveginum er samt háð hitastigi.
Það eru nokkrar leiðir færar til að gefa garðinum svip skógarins. Ég segi ekki að það sé gert á einu sumri en fyrst sumarið er drþgst. Aðferðin sem ég mæli með er að gera sem minnst. Ef plönturnar þínar mynda þykkar breiður loka þær beðunum og “illgresi” fær ekki nóga birtu og pláss til þess að geta þrifist. Undir laufskrúðinu eru svo margar tegundir smádýra sem þrífast vel.
Fjölbreyttur “villigarður” er sérlega góður fyrir ýmsar tegundir skordýra. Þau mynda líka gott jafnvægi og nútíma garðyrkjutækni getur sannarlega sett strik í reikninginn. Þegar lirfurnar birstast á vorin og fara að gæða sér að ný græðingnum er ákaflega freistandi að gefa þeim að smakka á nýjasta skordýraeitrinu. Líttu vel í kringum þig áður en þú gefur þeim gusu. Um leið og maðkurinn birtist koma þeir sem lifa á honum. Það eru ýmsir ránmaurar, köngulær og geitungar, fyrir utan fuglana sem eta ókjörin öll úr þessu nægtabúri. Ef eitrað er fyrir maðkin drepast líka þau skordýr sem lifa á honum. Og það sem verra er. Maðkurinn kemur bara tvíefldur vorið eftir og þar sem honum fjölgar hraðar en þeim sem lifa á honum tryggir eitrunin honum hættulaust sældarlíf.
Ef þú lendir í miklu maðkafári er miklu maðkafári er miklu skynsamlegra að fara og kaupa eitthvert kvikindi eins og ránmaura eða litlar vespur eins og Dacnusa eða Siglyphus sem glaðar verða í lirfurnar. Hugsanega verður í framtíðinni hægt að fá maríuhænur sem eta maðkinn eins og litlar ryksugur. Þú þarft ekki að hafa miklar áhyggjur af því að allt fyllist hjá þér af maríuhænum. Þegar þær hafa hreinsað garðinn þinn, drepast þær annaðhvort sjálfar úr hungri og verða að áburði, eða færa sig yfir í næsta garð. Svo er annað mál hvort rétt sé að kaupa náttúruna í dollum eða pökkim. Ef plága herjar er það vegna þess að eitthvað er að jafnvæginu. Reyndu að komast að því hvað það er og leiðrétta það ef hægt er.
Það sem er svo spennandi við “villigarðyrkju” eru möguleikarnir á að sveigja jafnvægið sér í hag. Þitt svæði getur orðið betra og öruggara en náttúran sjálf vegna þess að þú getur aukið og bætt, en það ertu sennilega að gera hvort sem er. Blómabeðin ery auðug uppspretta af hunangi og frjódufti sem dregur að sér villibýflugur og fiðrildi af stóru svæði í kring. Í næstu köflum ætla ég að sýna þér hvernig þú getur auðgað jurta- og dýralíf í garðinum, eða byrjað frá grunni svo að margar tegundir dýra og plantna taka sér bólfestu fyrir fullt og fast.
Það er reyndar önnur mikilvæg ástæða fyrir því að taka svona garðyrkju alvarlega. Hún er sú að þetta er svo aðgengilegt, frá hreinu vísindalegu sjónarmiði. Flestar uppgötvanir í náttúrufræði og líffræði hafa verið gerðar með óslitinni athugun af þolinmóðum einstaklingum.
Hvar er betra að stunda náttúruskoðun en í garðinum sínum? Svo einkennilegt sem það er, virðast flestir nátturuskoðendur fortíðarinnar hafa kosið að standa í vatni upp undir hendur í fenjamýrum, hálfétnir af skordýrum, eða frjósa á túndrunni til þess að rannsóknir þeirra fengju vísindalegt yfirbragð. Þess vegna er það oft svo að það sem er í bakgarðinum er minna skoðað og kannað en það sem lifir í fenjum hitabeltisskóganna. Dæmi um þetta er að þegar dóttir mín fékk það verkefni í áttunda bekk að skrifa ritgerð um skógarþröst þá lenti hún í erfiðleikum við að finna heimildir sem voru eitthvað annað en almennt rabb.
Það eru um það bil 1.4 milljónir lífvera þekktar í heiminum og þar af eru um 750.000 tegundir skordýra. Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands eru um 1300 skordýrategundir hér á landi, um 1.150 innlendar og 150 innfluttar. Áætlað hefur verið að skordýrategundir í heiminum gætu verið í námunda við 30 milljónir. Af mjög smágerðum tegundum sem aðeins má skoða í smásjá er talið að fjöldinn sé slíkur að ógerlegt og óvarlegt sé á að giska.
Aðeins hafa um 4000 tegundir gerla verið nefndar. Þráðormar, ormar, sveppir og örpöddur hafa varla verið rannsökuð. Tegundir hvers flokks um sig gætu skipt milljónum. Þú hefur því ærin verkefni fyrir höndum ef þú vilt gerast könnuður.
Auðvitað dettur mér ekki í hug að allir fari að eyða árunum í að athuga vandlega ferli snigla eða hreyfingar ánamaðka, eða hvað það er sem kætir bragðlauka kálormsins mest. Flestum okkar nægir að kynnast því sem lifir fyrir utan þröskuldinn. Enda er okkur skylt að hlúa að því lífi sem nú er á jarðarkúlunni svo tegundunum fækki ekki og það jafnvel þótt vísir menn telji að af öllum þeim tegundum sem lifað hafa á jörðinni frá því í árdaga séu rúm 99 % útdauðar. Og hvað skyldi nú Greenpeace segja við því?

Hættuleg efni:
Efni geta safnast saman í jarðvegi á löngum tíma. Þegar slíkt gerist geta þau staðið gróðri fyrir þrifum og verið beinlínis hættuleg heilsu manna og dýra. Þetta á sérstaklega við um skordýralyf og blýbúgarði í New York fylki í Bandaríkjunum sem koma á óvart. Það innihélt slíkt magm arseniks, blýs og DDT skordýraeiturs að jarðvegurinn var lagalega skilgreindur sem hættulegur úrgangur.

Birt:
10. apríl 2007
Tilvitnun:
Þorsteinn Úlfar Björnsson „2. kafli - Sérstakt hlutverk garðsins“, Náttúran.is: 10. apríl 2007 URL: http://nature.is/d/2007/04/10/2-kafli-srstakt-hlutverk-garsins/ [Skoðað:4. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. mars 2014

Skilaboð: