Iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, afhenti í dag Ford Focus FCV vetnisrafbíla til notenda sem munu taka þátt í stóru vetnisverkefni á næstunni. Um er að ræða fyrirtækin Brimborg, Íslenska Nýorku, Keili, Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjun, Icelandic Hydrogen, Eldingu hvalaskoðun, Nýsköpunarmiðstöð og Skeljung. Fyrirtækin munu nota vetnisrafbílana daglega, við krefjandi aðstæður svo hægt sé að safna upplýsingum um eiginleika vetnisrafbíla í daglegri notkun.

Brimborg og Íslensk NýOrka hafa fylgst með umræðu um visthæfa bíla um nokkurt skeið. Róttækra aðgerða er þörf ef draga á úr mengandi útblæstri. Nýleg yfirlýsing tíu helstu bílaframleiðenda heims um að vetnisrafbílar verði komnir í framleiðslu fyrir almennan neytendamarkað árið 2015 eða fyrr undirstrikar þetta en þörf er á að stjórnvöld, orkufyrirtæki, olíufyrirtæki og bílaframleiðendur sameinist um að byggja upp dreifikerfi á næstu árum fyrir vetnisrafbíla. Í máli ráðherra kom fram að Íslendingar hafi áður bylt orkunotkun sinni

Höfum áður snúið vörn í sókn í kreppu

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra sagði að afhending vetnisbílanna væri ánægjulegur viðburður og nauðsynlegt skref í að prófa almenna notkun og endingu tækninnar. Ráðherra sagði að Íslendingar hafi áður sýnt mikinn dugnað mitt í niðursveiflu, meðal annars hafi hitaveituvæðing landsins farið í gang í kjölfar kreppu. „Nær alger útrýming olíubrennslu til húshitunar með hitaveituvæðingu landsins var gífurlegt átak sem hófst í kjölfar kreppu. Erfitt er að ímynda sér gjaldeyrissparnaðinn eða jákvæð áhrif á umhverfi og lífsgæði sem þetta átak hefur skilað okkur í gegnum árin. Ég tel að í kjölfar þeirrar kreppu sem nú gengur yfir heiminn eigum við Íslendingar að snúa okkur að þeim geira þar sem við getum í raun dregið úr brennslu kolefnaeldsneytis og aukið hlut innlendra visthæfra orkugjafa. Hér er ég vitaskuld að tala um samgöngurnar.

Iðnaðarráðuneytið, í samvinnu við Vistorku, ráðuneyti umhverfis- og samgöngumála og Reykjavíkurborg, vinnur að formlegu átaki um orkuskipti í samgöngum, úr innfluttu jarðefnaeldsneyti og yfir í visthæfa innlenda orkugjafa. Í undirbúningi er stofnun klasasamstarfs þeirra fjölmörgu aðila sem sinna rannsóknum, þróun og framleiðslu á innlendum orkugjöfum fyrir bifreiðar og skip, bílgreinina og olíufélög sem vilja koma upp fjölorkustöðvum. Hugmyndin er að ýta undir þróunina með markvissum aðgerðum en reyna ekki að miðstýra því hvaða lausn verður ofan á heldur láta innlenda og erlenda tækniþróun og markaðinn sjálfan ráða því. Í stað þess að setja óraunhæf markmið viljum við draga fram allt það merka starf sem þegar er unnið af fjölda aðila.

Stefnt er að því að Ísland geti á komandi árum orðið leiðandi í tilraunum og framleiðslu á vistvænum orkugjöfum, m.a. með stuðningi við rannsóknir, þróun og uppbyggingu innviða.
Þetta átak verður kynnt formlega á næstu vikum. Næsta átak er tímabært og þar er til mikils að vinna. Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið í losunarmálum og allir sem vinna að því að skipta út innfluttu jarðefnaeldsneyti í visthæfa innlenda orkugjafa geta tengst og kynnt það sem er í gangi“ sagði Ráðherra.

Iðnaðarráðherra þakkaði Brimborg og Íslenskri Nýorku frumkvæðið og lagði áherslu á að verkefni sem þessi væru atvinnuskapandi, gjaldeyrissparandi og í þágu umhverfisins

Birt:
26. janúar 2010
Uppruni:
Brimborg
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Íslendingar hafa áður skoðað orkumál sín í kjölfar kreppu segir iðnaðarráðherra“, Náttúran.is: 26. janúar 2010 URL: http://nature.is/d/2010/01/26/islendingar-hafa-adur-skodad-orkumal-sin-i-kjolfar/ [Skoðað:18. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 28. janúar 2010

Skilaboð: