Taka þarf á bílastæðamálum í Reykjavík
Gjaldskrá vegna bílastæða í Reykjavík er ekki sambærileg við þær sem gilda í öðrum höfuðborgum á Norðurlöndum né heldur í London. Kolbrún hefur tekið saman tölur um þetta sem voru kynntar í umhverfis- og samgönguráði Reykjavíkur í dag. Hún nefnir sem dæmi að lagt er 1500 kr. gjald á bifreið ef gjaldmælir er fallinn, gjald sem lækkar í 950 kr. ef það er greitt innan þriggja daga. Danskir ökumenn í Kaupmannahöfn greiða hins vegar 8.364 kr. fyrir sama athæfi. Leggi ökumaður á gangstétt eða í stæði fyrir fatlaða er lagt á þá 2.500 kr. stöðubrotagjald í Reykjavík sem lækkar í 1.950 kr. ef greitt innan þriggja daga.
„Gjaldskrá Bílastæðasjóðs Reykjavíkur er langt á eftir miðað við það sem gerist í nágrenni við okkur,“ segir Kolbrún og að gjaldtaka fyrir stöðubrot sé aðeins brot af því sem gerist annars staðar. Verð fyrir bílastæði í bílastæðahúsum Bílastæðasjóðs er 80 krónur fyrir fyrsta klukkutímann og 50 krónur eftir það. Hálfur dagur kostar því 230 krónur. Hálfur dagur í Osló í Noregi kostar 2.520 krónur.
Umgengni á bifreiðum er umhverfismál í Reykjavík sem þarf að vera á dagskrá. Kolbrún vill einnig vinna að því að bæta viðhorf borgarbúa til Bílastæðasjóðs og ekki síst stöðuvarða sem eru eingöngu að sinna vinnu sinni. Leiðarljós sjóðsins er að sýna lipurð í samskiptum og er jafnræðisreglan í hávegum höfð. Bílastæðastjóður rekur sjö bílahús í Reykjavík það nýjasta við Laugaveg 86-94. Fjöldi stæða í bílahúsum 1.280. Fjöldi stæða við gjaldmæla um það bil 2.500.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Taka þarf á bílastæðamálum í Reykjavík“, Náttúran.is: 8. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/08/taka-tharf-bilastaeoamalum-i-reykjavik/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.