Aukið magn jarðhitaefna hefur mælst í Markarfljóti og leiðni þar með aukist.  Leiðni mældist 150 míkrósímens í Markafljóti í morgun, sem venjulega mælist 40 míkrósímens.  Brennisteinsmengun eykst með leiðninni og þar með brennisteinsfýla, sem finnst víða meðfram ánni.   Alkunna er að lítil jökulhlaup komi í Fremri Emstruá og er trúlegt að um slíkt hlaup sé að ræða.  Í ágúst 1988 tók af göngubrú af Fremri Emstruá í slíku hlaupi.  Brúin var síðar endurbyggð á öðrum stað.

Ekki er mikil aukning á vatnsmagni og ekki líkur á að það hækki í Markarfljóti svo hætta stafi af.

Reglulega er fylgst með vatnshæðabreytingum í Markarfljóti og mun Veðurstofa Íslands, lögreglan á Hvolsvelli og almannavarnadeildin fylgjast með framvindunni.
Birt:
12. ágúst 2009
Höfundur:
Tilvitnun:
NA „Aukin leiðni í Markarfljóti“, Náttúran.is: 12. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/12/aukin-leioni-i-markarfljoti/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: