Samkomulag sem Sveitarfélagið Ölfus gerði við OR (eða öfugt) þ. 28. apríl 2006 um greiðslur v. orkuvera á Hellisheiði og á Hengilssvæðinu ber nú aftur á góma.

Ástæða þess að farið er að skoða þetta samkomulag nú í kjölinn (Samkomulag milli OR og Sveitarfélagsins Ölfuss um ýmis mál sem tengjast virkjun á Hellisheiði*) er einfaldlega sú staðreynd að hann lyktar af spillingu eins og Árni Finnsson framkvæmdastjóri Náttúruverndarsamtaka Íslands lætur eftir sér hafa í viðtali á Vísir.is.

Út úr samkomulaginu er það að lesa að ákvörðun hafi verið gerð um umfangsmiklar virkjanaframkvæmdir á heiðinni löngu áður en OR kynnir frummatsskýrslur að umhverfismati og Skipulagsstofnun auglýsir eftir athugasemdum og löngu löngu áður en starfsleyfi eru veitt, verði yfirleitt af fleirum en Hellisheiðarvirkjun. Samkomulagið fjallar ekki aðeins um framkvæmdir heldur fjárstyrki, sem meðal annars eiga að greiða fyrir álag á bæjarstjórn. Samningurinn kveður á um að framkvæmdaleyfi verði veitt Orkuveitunni svo skjótt og greiðlega sem auðið er. Samningurinn er metinn á hálfan milljarð af Sveitarfélagi Ölfuss. Það er því ekki að furða að í augum Ólafs Áka Ragnarssonar bæjarstjóra komi ekki til greina að stöðva nokkurn skapaðan hlut. Það má gjarnan vera haft eftir mér persónulega að málið falli ekki einungis undir spillingu heldur hreinlega undir mútuþægni opinberra starfsmanna. Í öllum lýðræðisþjóðfélögum væri slíkt ástæða uppsagnar.

En spillingin endar ekki við samninginn heldur má segja að hann sé rótin. Í nóvember í fyrra gaf Sveitarfélagið Ölfus út svokallað „bráðbirgðaframkvæmdaleyfi“ fyrir vegagerð og boranir við Stóra Skarðsmýrarfjall. Slík leyfi eða heiti eru ekki til í stjórnsýslunni og hafa því ekkert gildi. Sláðu inn leitarorð til að finna frétt um málið og fleiri tengd mál, hér er ein og hér er önnur.

Til viðbótar þessum skandal auglýsir Sveitarfélagið Ölfus breytingar á deiliskipulagi því sem samþykkt var fyrir svæðið og hliðrar til stærri mannvirkjum og heldur því jafnframt fram að lagnir sem samþykktar voru neðnajarðar séu óframkvæmanlegar af tæknilegum orsökum sem standast ekki skoðun og eru hreinlega ekki réttar. Sjá frétt um málið.

Ef allt þetta er prufa af því sem koma skal er ekki nokkur furða að almenningur í landinu tapi traustinu á framkvæmdaraðilum og þeirra loforðum og ekki síst er alvarlegt að heilu Sveitarfélögin skuli vera undir hæl framkvæmdaraðila og háð þeim peningalega, hafi hreinlega selt sál sína. Í slíku umhverfi er allt leyfilegt og við eiginlegur eigendur þessa lands fá ekkert að gert. Tæplega 700 athugasemdir við Bitruvirkjun verða hreinlega lagðar í skúffu þvi í núverandi kerfi ráða sveitarstjórnir hvort eð er öllu en Skipulagsstofnun má bara eyða tíma sínum í að útbúa marklaus álit. Hvenær verður ljósara en nú að Skipulagsstofnun þarf aftur að fá valdasprotann sinn?

*Sjá samkomulagið.

Myndin er frá Henglinum. Ljósmynd: Árni Tryggvason

Birt:
22. nóvember 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sálarsamkomulag OR og Ölfuss“, Náttúran.is: 22. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/22/salarsamkomulag-or-og-olfuss/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 2. október 2009

Skilaboð: