Sérákvæði um starfandi sorpbrennslustöðvar hafa nú verið felld úr gildi með breytingu á reglugerð um brennslu úrgangs. Reglugerðin, sem nýlega var undirrituð, hefur í för með sér að allar íslenskar sorpbrennslustöðvar eiga nú að uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til sambærilegrar starfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu.

Með breytingunni er sorpbrennslustöðvum gert að uppfylla öll ákvæði reglugerðarinnar eigi síðar en 1. janúar 2013. Skulu rekstraraðilar þeirra tilkynna Umhverfisstofnun eigi síðar en 1. maí næstkomandi um hvort áframhaldandi rekstur stöðvarinnar sé fyrirhugaður. Áformi rekstraraðili að halda áfram rekstri skal hann jafnframt senda Umhverfisstofnun áætlun um hvernig stöðin muni uppfylla ákvæði reglugerðarinnar. Í því tilviki skal umsókn um nýtt starfsleyfi berast Umhverfisstofnun fyrir 1. maí næstkomandi.

Með breytingunni er gerð krafa um reglulegar mælingar á díoxíni tvisvar á ári hjá þeim brennslustöðvum sem halda áfram rekstri eftir 1. janúar 2013. Þá er gerð krafa um samfelldar mælingar á tilgreindum efnum, s.s. kolsýru og ryki. Þurfa sorpbrennslustöðvarnar því að hafa búnað til að sinna þessum mælingum.

Breytingarnar eru liður í viðbrögðum stjórnvalda í ljósi þess að mælingar á díoxíni frá sorpbrennslustöðvum á Ísafirði, Vestmannaeyjum og á Kirkjubæjarklaustri gáfu tilefni til að endurskoða reglugerð um brennslu úrgangs. Mikil umræða var um díoxínmengun frá þessum stöðvum sem og sorpbrennslustöðvarinnar í Svínafelli. Þegar hefur sorpbrennslustöðvunum í Svínafelli og á Ísafirði verið lokað að frumkvæði sveitarfélaganna, og snertir reglugerðarbreytingin nú því eingöngu stöðvarnar í Vestmannaeyjum og á Kirkjubæjarklaustri.

Mikill árangur hefur náðst á sl. 20 árum hér á landi við að draga úr losun díoxíns með margsháttar aðgerðurm stjórnvalda og þessi breyting á umræddri reglugerð mun bæta enn frekar þann árangur. Gert er ráð fyrir að reglugerðin birtist í Stjórnartíðindum 26. mars næstkomandi og tekur hún þá gildi.

Birt:
19. mars 2012
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Sérákvæði fyrir eldri sorpbrennslustöðvar felld úr gildi“, Náttúran.is: 19. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/19/serakvaedi-fyrir-eldri-sorpbrennslustodvar-felld-u/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: