Um Fjórðu skýrslu Millríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar - NSÍ
Iceland Nature Conservation Association
-
Reykjavík 31. janúar 2007.
-
Um Fjórðu skýrslu Millríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar
-
• Þess er vænst að meginniðurstaða Fjórðu skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem kynnt verður í París á föstudaginn 2. febrúar verði sú að andrúmsloft jarðar hitni ört vegna sívaxandi magns gróðurhúsalofttegunda, að vandamálið sé alvarlegt og að lítill vafi leiki á að hlýnun andrúmsloftsins s.l. 50 ár megi að mestu rekja til umsvifa mannsins.
-
• Niðurstöður Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (www.ipcc.ch) kalla á aðgerðir stjórnvalda til að draga verulega úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda.
-
• Náttúruverndarsamtök Íslands skora í ríkisstjórn Íslands að taka niðurstöðurnar alvarlega og kynna fyrir íslenskum almenningi á hvern hátt stjórnvöld hyggjast bregðast við þeim.
Skýrslan, sem er hin fyrsta af þremur þar sem fræðimenn hafa farið yfir vísindalegar rannsóknir á loftslagsbreytingum, dregur upp dökka mynd af þeim breytingum sem nú eiga sér stað. Þar á meðal eru hækkandi yfirborð sjávar, æ hraðari bráðnun jökla. minni snjóþekja, minni ísþekja á norðurhveli jarðar og æ lengri og verri þurrkatímabil víða um heim.
Mestum áhyggjum valda hin neikvæðu áhrif loftslagsbreytinga, að þau haldi áfram að magnast og að hrikalegar afleiðingar hljótist af verði ekki dregið verulega úr mengun lofthjúpsins. Ljóst er að andrúmsloftið hefur þegar hitnað umtalsvert af völdum gróðurhúsalofttegunda og mun halda áfram að hitna um langan tíma vegna þeirrar mengunar sem þegar er orðin.
Það er von Náttúruverndarsamtaka Íslands að skilaboð þeirra vísindamanna sem nú funda í París muni hafa áhrif á umræðuna hér heima og að Ísland leggi sitt af mörkum til lausnar vandans. Öðrum fremur hvílir sú skylda á hinum auðugu iðnríkjum. Þegar liggja fyrir rannsóknir sem benda til þess að iðnríkin verði að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kost 30% fyrir 2020 miðað við 1990 sem er viðmiðunarár Kyoto-bókunarinnar1.
Nauðsynlegt er að Ísland líkt og aðrar Evrópuþjóðir setji sér losunarmörk fyrir gróðurhúsalofttegundir árið 2020. Minnt skal á að þrátt fyrir að 70% af orkuframleiðslu á Íslandi valdi ekki útstreymi gróðurhúsalofttegunda er losun á hvert mannsbarn 12 tonn á ári og fer vaxandi og gæti orðið 17 tonn á mann árið 20162. Frekari samdrætti – umfram aðgerðir innanlands – er hægt að ná með því að nýta sveigjanleikaákvæði Kyoto-bókunarinnar, t.d. með því að aðstoða þróunarríki við að nýta jarðvarma.
Um Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna
Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) var sett á laggirnar árið 1988 af Umhverfisverkefni Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og Alþjóðaveðurfræðistofnuninni (WMO) með það að markmiði að meta vísindalegar, tæknilegar og samfélagslegar rannsóknir varðandi loftslagsbreytingar. Milliríkjanefndin fæst því ekki við rannsóknir heldur fer hún yfir og rýnir í þær rannsóknarniðurstöður um loftslagsbreytingar sem hafa verið gefnar út í vísindatímaritum eða á vegum rannsóknastofnana. Fyrri skýrslur nefndarinnar voru gefnar út 1990, 1995 og 2001.
Þrír vinnuhópar starfa á vegum Milliríkjanefndarinnar að athugunum á vísindalegum grunni loftslagsbreytinga:
1. Vinnuhópur I metur haldbærni vísindalegra niðurstaðna um loftslagsbreytingar.
2. Vinnuhópur II metur áhrif loftslagsbreytinga og hvernig hægt sé að laga sig að þeim breytingum.
3. Vinnuhópur III metur hvaða leiðir sé hægt að fara til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda.
Föstudaginn 2. febrúar mun Milliríkjanefndin kynna niðurstöður Vinnuhóps I í París og verður sú skýrsla fyrsti hluti fjórðu skýrslu IPCC. Framlag Vinnuhóps II verðu gefið út þann 6. apríl í Brussel og niðurstöður Vinnuhóps III verður gefnar út í Bangkok þann 4. maí.
1Den Elzen, MGJ and M Meinshausen, Meeting the EU 2ºC climate target: global and regional emissions implications, Netherlands Environmental Assessment Agency Report no: 728001301/2005
2Til samanburðar má nefna að Indverjar losa tæpt tonn á mann árlega og Kínverjar 2,5 tonn. Meðaltalið í Evrópu er um 10 tonn á hvern íbúa.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Um Fjórðu skýrslu Millríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar - NSÍ“, Náttúran.is: 1. febrúar 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/16/fjordsskyrlsa_loftslagsbr/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. mars 2007
breytt: 30. apríl 2007