Iðnaðarráðherra hefur nú, að sögn í ljósi atburðanna um OR, REI og Geysir Green, uppgötvað að löggjöf landsins sem varðar orkumál sé meingölluð. Einmitt þetta hafa náttúruverndarsinnar og samtök verið að benda á um áraraðir og hafa hrópað eftir hjálp og reynt að opna augu stjórnvalda fyrir því að stjórnleysi ríki í þessum málaflokki. Hvort sem hinn ný i iðnaðarráðherra hefur heyrt ópin eða uppgötvað þetta sjálfur er það mikil lukka fyrir náttúru Íslands. En ekki mátti tæpara standa.

Einar Karl Haraldsson aðstoðarmaður Össurar hélt ræðu fyrir hönd ráðherra á flokksráðsfundi Samfylkingarinnar í dag þar sem þessum skilaboðum var komið á framfæri. Löggjöfin veiti þjóðinni ekki vernd gegn ásælni einkafyrirtækja í sjálfar orkulindirnar og Össur boðar veigamiklar breytingar á löggjöf í orkumálum. Sú löggjöf á að tryggja samfélagslega eign á þeim orkulindum sem nú þegar séu í almannaeign, bæði innan ríkis og sveitarfélaga.

Tryggja þurfi að þeir þættir orkumarkaðarins, sem í senn sjá íbúum fyrir lífsnauðsynlegri þjónustu og eru annaðhvort orpnir undir lögbundna eða náttúrulega einokun, verði áfram í félagslegri meirihlutaeign. Undir það síðarnefnda falli dreifing á rafmagni, heitu og köldu vatni, og fráveitur.

Þá segir Össur það óviðunandi að stjórnvöld hafi engin tæki til að stjórna því hvenær og hvar stóriðjuframkvæmdir fari fram, með tilliti til efnahagsmála og jöfnun búsetuskilyrða. Ef öll áform um álver í Helguvík, á Bakka við Húsavík og stækkunar í Straumsvík yrðu að veruleika yrði framleiðsluaukning áls hér á landi tvöfölduð, orðin 1.6 milljón tonna árlega um 2015. Ef hugmyndir sem reifaðar hafa verið yrðu einnig að veruleika, t.d. um tvö álver í Þorlákshöfn og eitt á Vatnsleysuströnd væri heildarálframleiðslugetan orðin 2,9 milljónir tonna árlega og heildar raforkuframleiðslugeta Íslands fullnýtt. Það liggi í augum uppi að slíkt gangi ekki.

Össur telur að vaxtarmöguleikarnir séu erlendis - útrásin á sviði orkumála sé komin á fullt skrið. Ef haldi fram sem horfi sé ekki ólíklegt að innan tíu ára gætu fjárfestingar íslenskra fyrirtækja á sviði jarðorku numið yfir tvö þúsund milljörðum íslenskra króna.

Myndin er af þurri hvönn á Hellisheiði. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
4. nóvember 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Gölluð löggjöf loks uppgötvuð“, Náttúran.is: 4. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/04/gllu-lggjf-loks-uppgtvu/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 5. nóvember 2007

Skilaboð: