Lokadagur
Hann er 11. maí frá fornu fari, og þá lýkur vetrarvertíð á Suðurlandi. Þar sem upphaf vertíðarinnar var bundin ákveðnum almanaksdegi, kyndilsmessu, varð engin tilfærsla á vertíðarlokum einsog vinnuhjúaskildaganum. Löngum hefur verið þó nokkuð um dýrðir hjá sjómönnum á lokadaginn og væri það efni í langt mál, en út í þá sálma skal ekki farið hér. Skerpla heitir annar mánuður sumars að forníslensku tímatali. Hún hefst laugardaginn í 5. viku sumars, þ.e. 19. – 25. maí. Í Snorra Eddu er hann kallaður bæði eggtíð og stekktíð og skýra þau nöfn sig sjálf. Þar sem fjórir undanfarandi mánuðir voru helgaðir móður, dóttur, föður og syni, fann fólk upp á því að eigna lausaleikskonum skerplu. Heimildir um þetta eru þó ekki nema frá Vestfjörðum.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Lokadagur“, Náttúran.is: 11. maí 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/lokadagur/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 1. janúar 2013