Baktjaldamakk og öfgamennska?
Neðangreint bréf hefur verið sent alþingismönnum.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti því yfir á flokksráðsfundi s.l. laugardag að með „baktjaldamakki” væru „öfgamenn í umhverfismálum eru hreinlega að taka orkumál á Íslandi - og þar með verðmætasköpun til langrar framtíðar - í gíslingu. Um það,” segir Bjarni „getur aldrei tekist nein sátt!”
Formaðurinn vísar einkum til þess að virkjanakosturinn Norðlingaölduveita með uppistöðulóni í Þjórsárverum hafi verið settur í verndarflokk í fyrirliggjandi drögum að þingsályktunartillögu um Rammaáætlun og kynnt var á síðasta ári.
Bjarni Benediktsson hefur greinilega ekki fylgst vel með þróun þessa máls. Við undirbúning náttúruverndaráætlunar 2008 – 2012 lagði Umhverfisstofnun til við umhverfisráðherra að friðlandið í Þjórsárverum yrði stækkað verulega til norðausturs og vesturs en þó einkum til suðurs; suður að Sultartangalóni beggja vegna Þjórsár.
Þessi tillaga fagstofnunar umhverfisráðuneytisins frá 2003 var sett fram í tíð umhverfisráðherra, Sivjar Friðleifsdóttur, sem tæpast verður sökuð um baktjaldamakk gegn hagsmunum Landsvirkjunar og/eða samráðherrum sínum í ríkisstjórn Íslands. Ennfremur, í lok árs 2005 stuðlaði Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra Sjálfstæðisflokksins, mjög að stækkun Friðlandsins í Þjórsárverum með þeirri ákvörðun sinni að synja staðfestingu á þeim hluta svæðisskipulagstillögu samvinnunefndar miðhálendisins sem laut að Norðlingaölduveitu. Í fréttatilkynningu Sigríðar Önnu sagði:
Ákvörðun ráðherra felur því í sér að skipulagi þess svæðis á miðhálendinu sem lýtur að Norðlingaölduveitu hefur ekki verið breytt og gildir því áfram það skipulag sem gilt hefur á því svæði. Það skipulag gerir ekki kleift að ráðast í framkvæmd Norðlingaölduveitu í samræmi við úrskurð setts umhverfisráðherra frá 30. janúar 2003* og er því framhald þess máls í höndum samvinnunefndar miðhálendis.
Árið 2008 lagði umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir fram þingsályktunartillögu um náttúruverndaráætlun 2009 – 2013 sem m.a. fól í sér að Friðlandið í Þjórsárverum yrði stækkað til suðurs þannig að Eyvafen og svæði suður af því yrðu hluti friðlandsins. Tillaga Þórunnar byggði á ofangreindri tillögu Umhverfisstofnunar frá 2003 og í greinargerð Náttúrufræðistofnunar kemur skýrt fram hver friðlandsmörkin verði. Allt þetta liggur fyrir í þingskjölum.
Fyrir utan faglegt álit Umhverfisstofnunar frá 2003 lá fyrir stefnuyfirlýsing Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá 2007 en þar var sérstaklega tekið fram að „… stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna.”
Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar segir að „Friðlandið í Þjórsárverum verði stækkað og friðun lokið hið fyrsta.” Náttúruverndaráætlun 2009 - 2013 var samþykkt á Alþingi sumarið 2009. Í áliti meirihluta umhverfisnefndar, dags. 12. ágúst 2009, segir:
Við ákvörðun þeirra svæða sem lagt er til að verði á náttúruverndaráætlun er stuðst við vísindalega gagnagrunna Náttúrufræðistofnunar Íslands um tegundir, vistgerðir og jarðfræði landsins. Fagleg [svo] mat er lagt á það hvaða þættir í náttúru landsins eru verndarþurfi og raunhæfar tillögur um friðlýsingu þannig mótaðar út frá vísindalegum gögnum. Meiri hlutinn telur því ljóst að faglega hafi verið unnið að gerð áætlunarinnar og ákvörðun þeirra svæða sem hún nær til. Gerir meiri hlutinn ekki athugasemdir við tillögur að friðlýsingu einstakra svæða.
Þann 21. ágúst sama ár samþykkti svo ríkisstjórnin að hefja skyldi vinnu við stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Verður að telja það hafi verið í fullu samræmi við Náttúruverndaráætlun 2009 – 2013, samþykkt af meirihluta Alþingis nokkrum dögum áður. Á hinn bóginn – og það er e.t.v. til marks um varkárni eða hægagang stjórnvalda – hefur þeirri stefnumörkun ekki verið fylgt fast eftir þrátt fyrir að verin séu sameign þjóðarinnar – þjóðlenda. Þann hægagang má hugsanlega skýra með vilja stjórnvalda til að ná sátt um Rammaáætlun.
Hvað Rammaáætlun varðar skal bent á að í niðurstöðum faghóps I, Náttúra- og menningarminjar,segir m.a.: Það var mat hópsins að nokkur svæði, einkum vatnasvið Jökulsár á Fjöllum, Torfajökulssvæðið/Friðland að fjallabaki, Þjórsárver, syðri hluti gosbeltisins við Skaftá/Langasjó/Tungnaá, Vonarskarð og Markarfljót væru gríðarlega verðmæt. [feitletrun er okkar.]
Í ljósi alls þessa vaknar sú spurning hvað vakir fyrir formanni Sjálfstæðisflokksins með ummælum sínum um „baktjaldamakk” og „öfgamennsku”.
Náttúruverndarsamtök Íslands skora á þingmenn að forðast gífuryrði og klámhögg í umræðu um Rammaáætlun. Jafnvel þótt þingmenn Sjálfstæðisflokksins kunni að hafa óbeit á „samræðustjórnmálum” hljóta þingmenn flokksins að geta rætt kosti og galla Rammáætlunar á málefnalegan hátt. Árás formanns flokksins á þann mikla fjölda fólks sem er hlynnt náttúruvernd ber vott um vanþekkingu og lítilsvirðingu.
Virðingarfyllst,
f.h. Náttúruverndarsamtaka Íslands,
Árni Finnsson
* [feitletrun okkar]
Birt:
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Baktjaldamakk og öfgamennska?“, Náttúran.is: 19. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/19/baktjaldamakk-og-ofgamennska/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.