Sólarkaffi
Í mörgum þröngum fjörðum og dölum landsins, einkum á Vestfjörðum og Austfjörðum, líða oft nokkrar vikur eða mánuðir svo í skammdeginu, að sólin sést ekki yfir fjallabrúnir. Þegar hún birtist aftur, var og er víða venja að fagna henni með dálitlu tilhaldi svo sem kaffi og pönnukökum. Tímasetningin var auðvitað mismunandi eftir legu einstakra bæja, svo að vart var um sameiginlega hátíð að ræða fyrir heilt byggðarlag. Í kauptúnum gat hinsvegar komið fyrir að fólk tæki sig saman. Á síðari áratugum hafa sum átthagafélög í stærri bæjum, einkum Reykjavík, tekið upp þann sið að hafa svokkallað sólarkaffi einhvern dag í nánd við endurkomu sólarinnar í þeirra heimasveit.
Ljósmynd: Pönnukökuveisla, Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Sólarkaffi“, Náttúran.is: 2. febrúar 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/slarkaffi/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 2. febrúar 2013