Þjóðgarð eða orkuvinnslu, fuglasöng eða túrbínusuð? Þetta er kannski ekki svona auðvelt. Ekki frekar en að val okkar snúist um sauðskinnsskó og velling eða hagsæla framtíð! Flestir ættu að geta sammælst um að náttúran sé bein og óbein uppspretta lífsgæða okkar og í því felst einmitt þversögnin að með bættum lífsgæðum og meiri frítíma hefur áhugi fólks á náttúrunni og ferðalög um hana aukist mikið.

Þannig hefst inngangur að greinarflokki um þjóðgarða Íslands í nýjasta tölublaði tímaritsins Útviveru.

Á Íslandi eru fjórir þjóðgarðar í dag. Fyrsti „þjóðgarðurinn“ eða friðlýsta svæði eru Þingvellir en þeir voru friðlýstir fyrir alþingishátíðina árið 1930. Árið 1956 voru fyrstu náttúruverndarlögin samþykkt á Íslandi og eru hinir þjóðgarðarnir friðlýstir samkvæmt þeim. Þeir eru Þjóðgarðurinn Skaftafell, friðlýstur 1966. Þjóðgarðurinn Jökulsárgljúfur, friðlýstur 1973 og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, friðlýstur 2001.
Í Útiveru eru að þessu sinni teknir fyrir þjóðgarðarnir Þingvellir og Jökulsárgljúfur, rætt um forsögu og sérstöðu og hvað er boðið upp á hvorum stað og sagt frá tveimur áhugaverðum gönguleiðum. Sigþrúður Stella Jónsdóttir þjóðgarðsvörður skrifar greinina um Jökulsárgljúfur. Þar segir m.a. “Á sumrin eru starfræktar upplýsingmiðstöðvar í Ásbyrgi og Vesturdal, þar sem landverðir veita upplýsingar um alla þjónustu, afþreyingu og útivistarmöguleika í þjóðgarðinum og nágrenni. Sumarið 2007 er stefnt að því að opna Gljúfrastofu, nýja gestastofu og upplýsingamiðstöð þjóðgarðsins í Ásbyrgi. Í þjóðgarðinum eru þrjú tjaldsvæði. Þjóðgarðurinn er tilvalinn til náttúruskoðunar og gönguferða. Landslag og lífríki er þar mjög fjölbreytt og andstæður miklar. Í og við Ásbyrgi er mikill birkiskógur með fjölbreyttum blómgróðri og skemmtilegu fuglalífi.“
-
Kortið er af Jökulsárgljúfur þjóðgarðinum. Gönguleiðir eru merktar með rauðum línum. Sjá nánar um þjóðgarða Íslands á vef Umhverfisstofnunar.
Sjá vef Útiveru. Sjá nánar um tjaldstæði á Íslandi á tjaldstaedi.is.

Birt:
30. júlí 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Þjóðgarðar á Íslandi“, Náttúran.is: 30. júlí 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/20/tjodg_isl/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. mars 2007
breytt: 4. maí 2007

Skilaboð: