,,Almenningur er sífellt meira vakandi fyrir loftslags- og loftgæðamálum og það er gaman að sjá að meirihluti innsendra ábendinga komu frá áhugasömum íbúum,“ segir Eygerður Margrétardóttir umhverfisfræðingur hjá Umhverfis- og samgöngusviði. En Reykjavíkurborg óskaði í vor liðsinnis borgarbúa um hvernig annars vegar mætti sporna gegn gróðurhúsaáhrifum af mannavöldum og hvernig hinsvegar bæta mætti loftgæði í borginni.
 
Fjölmargar góðar ábendingar bárust eða samtals 234. Flestar ábendinganna snéru að samgöngu- og skipulagsmálum. Sterkur vilji kom fram um að nagladekk yrðu bönnuð í borginni enda einn orsakavaldur svifryks. Tillögur komu fram um að stöðumælagjöld og -sektir yrðu hækkuð og um að lækka hámarkshraða niður í 70 innanbæjar. Eins var stungið upp á því að starfrækja rafknúna strætisvagna, annað hvort drifnum á rafhlöðum eða með loftlínum eftir leiðum vagnanna.
 
Stýrihópur á vegum Reykjavíkurborgar hóf vinnu við mótun áætlunarinnar í ágúst 2008 með það að markmiði að móta heildræna langtímaáætlun um loftgæði og loftlagsmál í borginni. Leitað var meðal annars umsagna frá fag- og hagsmunaaðilum bæði innan sem utan borgarkerfisins í tengslum við mótun stefnu- og aðgerðaáætlunar í loftslags og loftgæðamálum í Reykjavík.
 
Ábendingar bárust um að gera hjólareinar meðfram umferðargötum og að breyta stofngötum í breiðstræti með mannlífi og gróðri. Bent var á að gera þurfi ráð fyrir söfnun og móttöku sorps til endurvinnu í skipulagi borgarinnar.
 
Lagt var til að Laugavegi, Austurstræti og Skólavörðustígi yrði almennt lokað fyrir bílaumferð. Göturnar ættu fyrst og fremst að vera opnar fyrir hjólaandi og gangandi vegfarendur.
 
Skþrar kröfur komu fram um rannsóknir á losun brennisteinsvetnis á svæði Orkuveitunnar á Hellisheiði og að gripið yrði til aðgerða til að sporna við henni. Eins var lagt til að hafa gott samráð og samvinnu um endurheimt votlendis sem raskast vegna framkvæmda.
Stefnt er að því að leggja áæltunina fram til samþykktar hjá borginni í haust.

Mynd: Hjólreiðamenn í Reykjavík, ljósmynd frá Reykjavíkurborg.
Birt:
4. júní 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Áhugi fyrir loftslags- og loftgæðamálum í Reykjavík“, Náttúran.is: 4. júní 2009 URL: http://nature.is/d/2009/06/04/ahugi-fyrir-loftslags-og-loftgaeoamalum-i-reykjavi/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: