Aðalfundur Landverndar árið 2007, haldinn að Sólheimum í Grímsnesi, 5. maí 2007
ályktar um samgöngur á Vestfjörðum:

Mælt er með því að við vegagerð á Vestfjörðum verði í ríkari mæli horft til jarðganga sem valkost. Með jarðgöngum á milli fjarðarbotna mætti víða stytta vegalengdir og bæta umferðaröryggi á sama tíma og komið yrði í veg fyrir óþarft umhverfisrask, sbr. raskið sem fylgja myndi vegagerð um Teigsskóg, þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar í stað jarðganga undir Hjallaháls. Með jarðgangagerð er efnistöku úr opnum námum haldið í lágmarki þar sem nýta má efnið sem fellur til við gangagerðina til uppbyggingar veganna.


Til skýringar:
  • Beita skal hvarvetna sem umhverfisvænstri vegalagningu, ekki síst á Vestfjörðum, en aðstæður þar skapa sérstakar hættur fyrir lítt raskað umhverfi við þverun grunnra fjarðarmynna og vegakróka út fyrir nes og múla („ytri leiðir“, oft lenging).
  • Mælt er að öðru jöfnu í þess stað með jarðgangagerð undir hálsa og heiðar á milli fjarðarbotna („innri leið“, oft styttri), en með því móti fellur einnig til efni í vegi á milli, sem þá ekki þarf að vinna úr opnum námum í landslaginu. Jarðgöng munu í mörgum tilfellum geta verið jafnhagkvæm eða hagkvæmari en „ytri leiðir“, auk mun minni umhverfiskostnaðar.
  • Setja þarf fram yfirlitsáætlun um slíka jarðgangagerð, líklega staðsetningu ganga og áfangaskiptingu þeirra í tíma. Mælt er með, að jarðgöng milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar verði í forgangi, svo og jarðgöng undir Hjallaháls í stað vegar út um Teigsskóg og fjarðamynnaþverunar í Djúpafirði og Gufufirði.
  • Bent skal á, að svipað gildir, að breyttum breytanda, um jarðgangagerð víða á öðrumblágrþtitissvæðum landsins, t.d. Austfjörðum og Norðurlandi.


Greinargerð:

Landslag á blágrþtiissvæðum landsins einkennist út til sjávarins af djúpum og þröngum dölum og fjörðum, með fjallgörðum, hálsum eða heiðum á milli. Þetta landslag er að mörgu leyti örðugt til vegalagningar og hafa vegir þar oft orðið langir og krókóttir, út fyrir nes og múla eða yfir fjallaskörð og háar heiðar. Þar við bætist, að strandlæg lega og meðfylgjandi veðurfar veldur oft óveðrum og snjósöfnun á slíkum hálendari köflum veganna. Gildir það ekki síst á Vestfjörðum, þar sem vegir liggja víða yfir hálsa, stundum nokkuð breiða, og óveðursamt getur verið af veðrum úr ýmsum áttum. Þar er því fyrir hendi þörf að færa vegi eftir föngum í skjólsælla og betra veðurumhverfi. Til þess eru einkum tvennar leiðir færar:

  1. Gera jarðgöng milli fjarðarbotna eða innfjarða, sem oft er um leið sem næst stysta leiðin fyrir vegina (“innri leið”).
  2. Krækja út fyrir nes og múla og þvera grunn fjarðarmynni með vegagerð. Af staðbundnum ástæðum kemur slík vegagerð tæknilega einkum til greina í þverfjörðunum við Breiðafjörð, sums staðar við Ísafjarðardjúp og á stöku stað í innfjörðum annars staðar. Þessar leiðir eru yfirleitt lengri (“ytri leið”), kostnaður við þær verulegur og umhverfisrask til lands og sjávar oft verulega mikið.
Líta verður svo á, að fyrri kosturinn sé yfirleitt til stórra muna umhverfisvænni, oft og tíðum ekki óhagkvæmari í hreinum, tæknilegum kostnaði, en til viðbótar kemur svo sparnaður á umhverfiskostnaði.

Brýn þörf er orðin að skoða vegalagningu á Vestfjörðum í heild frá þessu sjónarmiði og gera sem fyrst yfirlitsáætlun um jarðgangavæðingu landshlutans í samræmi við það. Þar komi fram líkleg staðsetning jarðganga, og hugmyndir um áfangaskiptingu slíks verks. Á er þó að líta, að góð og trygg jarðgöng milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar eru þar forgangsmál, en skjótt þarf einnig að hefjast handa við jarðgangagerð undir Hjallaháls í stað fyrirhugaðrar krækingar og fjarðaþverunar, sem nú er ráðgerð. Það yrði fyrsti áfangi í jarðgangagerð frá Þorskafirði vestur á bóginn (Hjallaháls, Ódrjúgsháls, Gufudalsháls, Klettsháls) í átt til Patreksfjarðar og Arnarfjarðar. Hagkvæmt gæti verið að vinna í samfellu að jarðgangagerð á a.m.k. tveimur svæðum í senn á Vestfjörðum á komandi árum.

Bent skal á, að svipað gildir um önnur blágrþtissvæði landsins (Austfirði, Norðurland), að litnu til þess munar á landslagsgerðum, sem þar ríkir. Þar þarf einnig að vinna svipaðar yfirlitsáætlanir.
Birt:
May 6, 2007
Höfundur:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Ályktun um samgöngur á Vestfjörðum - Landvernd“, Náttúran.is: May 6, 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/06/lyktun-um-amgngur-vestfjrum-landvernd/ [Skoðað:Oct. 15, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: May 11, 2007

Messages: