12. A. Nú verð eg strax að segja er eg fæ byggingarbréf frá amtmanni að velja bæjarstæði. Segðu mér nú fyrst hverninn þér líst að eg velji afstöðu og landslag sem byggilegast þar sem eg tek eyðijörð til fjalla, sem legið hefur í kaldakoli margra mannsaldra?      B. Fyrst skaltu velja gott vatnsból því flestum óhægindum er það verra ef þess er vant. Það vatn er best, sem engan smekk og enga lykt hefur og það sem skúmar 1) vel með sápu. Þessi kenniteikn telkur Dr. Joh. Sam. Carl og hrósar mest regnvatni til drykkjar. Hann segir og það bati mjög vatn að heita það sem tevatn og drekka það síðan kalt því þá skilji sig frá því það sem jarðarkyns sé. Þar máttu vænta að fá gott vatn hvar djúp uppspretta kemur úr grýttri jörðu eður hvar lækur brýst mjög í gegnum grjót og steinsand. Fáir þú ekki annað en ósmekklegt og barkandi vatn úr mýrarbrunnum (sem er langt um betra til litunar en drykkjar) þá verður þú að hlaða upp brunn þinn allt um kring með grjóti og bera þar að utan steinmöl og steinsand vel þykkt eins og á botninum, hálfrar álnar lag eður meira. Þar síast þá vatnið í gegnum og veðrur betra. Ekkert slý eða gras má í því líðast því yrmlingarnir tímgast þar þá og kunna að drekkast í vatni af mönnum.Þú verður að hreinsa brunn þinn árlega svo ekki nái þar að ílengjast brunnklukkur eða annað illyrmi.Nokkrir hafa veitt smásilunga og hleypt þeim lifandi ofan í brunna til að eyða þar ormum. Lifa þeir þar heilt missiri niðri ef brunnurinn er stór. Þess verður þú að gæta og enn heldur kynna þér fyrirfram að vatnsmegin sé svo mikiðað hvorki þorrni upp í sumarhita né taki heima í vetrarfrostum og nægi til allra búþarfinda.13. A. Er það allt óheilindavatn, sem hefur smekk?      B. Einn lærður maður í Noregi, Ström, skrifar svo:1) Heilsubrunnar voru ei þekktir í Noregi fyrr en 1768. Það vatn hefur mineral-anda og eterisk loft. Merki þar til er sterk lykt og dampi af vatninu og miklar bólur á því ef það hristist í glasi.Þau vötn hafa sér í salt, brennistein, og járn. Með saltinu þynna þau blóðið, leysa slím og þrengja sér í gegnum fínustu æðar, opna þær og hreinsa burt það skaðlega fyrir úrin, vallgang og sveita. 2)1) Tilskueren paa landet, 1775-1776, nr. 9, grein eftir Hans Ström, ritstjóra tímaritsins.
2) fyrir. . . sveita: fyrir þvag, saur og svita.

Með brennisteininum lina þau verkjum og örva svita og þeirra járnkraftur styrkir sinar og vöðva. Segja það læknar að margir sjúkdómar læknist aldrei til fulls nema með járnvatni, sem gefur styrk og festu þeim pörtum líkamans, sem linaðir eru. Merki þessara brunna er: Hvar þeir vella upp er brún jörð í kringum þá og járnlá ofan á þeim. Mýrvatni verður frá þeim að veita ef það rennur í þá. Einfaldasta merki til að prófa þá er að leiða hest að þeim. Vilji hann drekka þá er sá brunnur góður og allar skepnur vilja gjarnan þetta vatn. Menn prófa þetta vatn svo: Þeir láta gallepli, 1) grænt te eða tormentillurót, 2) hvert af þessu vel mulið, koma í flösku, sem þetta vatn er í. Þess fljótara sem þetta mjöl sekkur þess hreinna er vatnið. Þess meir sem það breytir litum, frá brúnum til hins svarta, þess sterkara er það. Það er og styrkleiks merki ef það fær nokkuð á höfuðið og leggur út limina. Þegar menn hafa reynt þetta vatn verður að byggja yfir því svo að hvorki sólskin né regnvatn komi þar að. Menn drekka vatnið af brunninum eða láta fær sér það í flösku með þéttum tappa og taka tvö glös þar af einum tíma áður menn fá mat að morgni og eins mikið eftir miðdag þá maturinn er nærri meltur. Síðan hrærir maður sig eður gangi til síns erfiðis. Þetta gjörist um hásumar svo lengi sem maður þarf hætti ei þótt engan bata finni í 14 daga. Þvoi líka veika limi. Gott er að purgera 3) áður og eftir. 1) Gallepli (úr þý: Gallapfel), hnúðar sjúklega myndaðir á eikarblöðum o. fl. jurtum, gagnlegir til sútunar, blekgerðar og litunar.
2) Potentilla, tormenntilla, jurt af muruætt, notuð m.a. í litun og sútun.
3) Tæma þarma. Menn kunna að drekka 1 pott á dag fyrr en þeir fá fyrst mat og síðan að öðru hverju allan daginn við þorstanum. Fyrirfram má blóðríkum manni opna æð og byrja vatnslækninguna daginn þar á eftir. Hér við læknast liðaverkir, ofþykkt blóð, tíðamissir kvenna, þunglyndi þó þetta hið síðasta með því móti maður drekki áður seyði af horblöðku, (bukkeblade, trifolium, fibrinum), sem of vex hjá þessum brunnum. Þetta vatn er talið gott við öllum innvortissjúkdómum, item skilningarvita og blóðsins brestum, e. i. s. magans og þvagsins, item líkþrá og öllum þar með fylgjandi krankleikum, einkanlegast öllum þeim, sem snerta blóðið og saftirnar. Gott er að smyrja veika limi með þeirri brúnu feitu jörð, sem sest undir þetta vatn. Líka kunna menn baða sig í þessu vatni nær maður heitir annað vatn og hellir þar ofan í þessu mineraliska vatni til þess mátulega volgt er orðið og brúka þetta bað á 8 eða 9 daga fresti. Þetta skrifar Ström. 14. A. Munu ekki þetta vera ýkjur, og þó svo væri, hvar hefir ég á Konungsstöðum slíkan brunn?       B. Sá Norski Sunnmærarprestur, Hans Ström, er nú af mörgum þekktur fyrir einn af þei, lærðustu og bestu mönnum í Noregi og allt hvað hann skrifar um slíka brunna er samkvæmt skynsemi athugasamra manna. 1) 1) Merkilegast allra rita Ströms er Söndmörs beskrivelse, 2. Bindi, 1762-69. Aðgengileg er sú bók í ljósprentaðri útgáfu. (t.d. í Hbs.) Sjá má að hún hefur komið að beinum og óbeinum notum fyrir íslenka 18. aldar höfunda, er lýstu eigin landi og möguleikum þess. En þess vegna vildi eg láta þig vita þetta að þér mætti að gagni koma, finnir þú slíkan brunn í landeign þinni, sem mér þykir meiri von að verði ef þú gefur gaum að. Því færri munu lendur þær á Íslandi, helst þær sem til fjalls ná, að ei hafi þess slags brunn, en ekki alla þá jafn sterka, og nokkuð af verkunum þvílíks vatns hefi eg reynt hér á bæ. Mun eg þó hafa betri brunna en þá eg hefi þegar fundið, því nóg hefur hér jörðin af öllu því þrennu, brennisteini, salti og járni. Viðlíka dygðir eignar Joh. Sam. Carl, hoflæknir greifans af Isenburg, þvílíku heilsubrunnavatni. 1) Hafir þú hvorki gallepli, te né tormentillurót þá er þér betra en ekki að brúka í þess stað burnirót eða sortulyngsmyðlinga 2) til að reyna taka vatnið með. 1)Bók Carls ,,hirðlæknis’’ Ísenburggreifans úr Rínarlöndum, hér Vom Wasser-Engel, líklega með hliðsjón að engli Betesdalslaugar í Jerúsalem, Carl var líflæknir Danakonungs 1735-42, bjó svo í elli í Holtsetalandi.
2) lúsamulninga 15. A. Ekki lifi eg af einu saman vatni. Segðu mér afstöðu túns og bæjar.       B. Taktu til ráðs með þér forstönduga menn, sem þekkja þar landslagið. Þeir geta sagt þér og varað þig við hvar neðangöngu vatn sé og hvar ís svellur upp á vetrum. Veldu þér þá með þeim þann stað.       1. Hvar byggilegast er og bestur jarðvegur. Hans merki eru þessi: Hátt gras eður lyng saman við, þvöl svört mold, ein saman eða leirblandin. Hvar menn grafa gröf ofan í jörðina og geta eigi komið allri þeirri mold ofan í gröfina aftur, sem upp úr henni kom, verður þess meira afgangs sem jörðin er feitari. Hvar langt og rýrt gras er, þar sem jörðin jafnan mögur. Nema mosamýri sé, hún er jafnað ávaxtarlaus.       2. Hvar bæjar og peningahús kunna að standa á hóli, leiti eða svo hátt að þaðan renni öll rækt út á tún en ekki ofan í lækin, dý eða fen að ónytju. Þá er líka þerrisælla við bæinn. En vert er að varast hvar veðurnæmt er, helst byljaveður, ef menn eiga kost á því.      3. Hvar bæ, túni og engjum er sem óhættast fyrir að skriðum, snjóflóðum, landbroti af ám vötnum, sandi sjóargangi eða öðrum skaða.      4. Hvar túnið er mest suður undan bænum og á móti sólu helst ef raklent er svo hennar neyti sem best framan af degi, en liggi í hlé fyrir norrænum.      5. Hvar túnið hefur sem minnst af kaldavesli og neðangangsvatni því þess háttar jörð er aldrei frjósöm, síst þegar hún liggur í móti norðlægri átt, en það kostar oft mikið erfiði að veita öllu því vatni burt.     6. Það er hagkvæmt að bóndi sjái innan úr húsi sínu hvað um er úti, hvort nokkur ferðast um eða kemur að garði, um tún sitt og engjar, fjós og fjárhús, hjalla og skipavör við sjó. Þetta síðasta taka sjóbændur á Vestfjörðum til vara og sjá þeir úr rúmi sínu hvort sjó veður er og hvað sjóarföllum líður.     7. Hvar þurrt og gott er aðreiðar því blotni þeir troðningar mjög upp þá leggja ferðamenn hverja götu út af annarri og verður allt það land, sem upp treðst, ónýtt á meðan svo fer fram. Ætlaðu svo til að lestamenn hafi góðan þjóðveg utan til við tún þitt svo þeir þurfi ei að reka yfir það og er best að ein gatan sé skýr og breið frá þeirra vegi heim að bæ þínum, fyrir þá sem koma vilja. Þegar þú gjörir síðan tröð að bænum á hún að vera ei minna en 5 álna breið og er þér langt um minni skaði að missa það pláss en að túnið troðist.    8. Getirðu komið því við þá verður þér það mikið hagræði að leggja þér þar tún sem hægt er að fá efni í túngarð allt um kring, hvort heldur er grjót eða hnaus, og hið sama er jafnað athugandi þar sem menn brjóta jörð til engis eður akra. Þetta flest allt er tekið úr bæklingi Varronis 1) de re Rustica (Lib. I. kap. 12.13) og P. Juuls: Góða bónda (kap. 13.) 2) 1) Marcus Terentius Varoo, er dó árið 27 f. Kr. Gerði m.a. þetta víðlesna rit Res rusticae.
2) Ekki sést hér að B.H. hafið notað né þekkt þýðing sr. Jóns Egilssonar.

Atli* er eitt af ritunum í Riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal og fæst hér á Náttúrumarkaði.

Birt:
28. maí 2011
Tilvitnun:
Björn Halldórsson í Sauðlauksdal „Atli velur sér bæjarstæði - Atli III“, Náttúran.is: 28. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2009/08/31/atli-velur-ser-baejarstaeoi-atli-iii/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 31. ágúst 2009
breytt: 21. maí 2011

Skilaboð: