Þjórsárver – náttúra og náttúruverndarsaga
Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 27. janúar 2014 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Ágrip af erindi Dr. Gísla Más Gíslasonar, haldið mánudaginn 27. janúar 2014:
„Þjórsárver er heiti sem Finnur Guðmundsson fuglafræðingur gaf gróðurverum sunnan Hofsjökuls. Þjórsárver eru í dæld sem fær vatn frá Hofsjökli og austan frá Vatnajökli. Nafnið ver (veiðistöð) vísar til þess að þarna voru heiðagæsir veiddar í sárum áður fyrr.
Í erindinu verður skýrt frá náttúru þessa svæðis, sem er stærsta gróðurlendi í miðhálendi Íslands í annars eyðimörk sem umlykur það. Um helmingur er votlendi og á mili þeirra lyng- og víðiheiðar.
Þjórsárver er með meiri tegundafjölbreytileika plantna og dýra en önnur sambærileg svæði á hálendinu og einnig er það þekkt fyrir mikið blómskrúð í brekkum sem snúa móti suðri, eins og Arnarfellsbrekku og Arnarfellsmúlum. Einnig er þetta stærsta sífrera svæði á Íslandi. Heiðargæsin kemur í byrjun maí og verpir á kollum freðmýrarrústa og meðfram ám, þar sem er snjólaut þegar gæsin kemur. Meðan stofninn var minni voru Þjórsárver stærsta varpsvæðið á Íslandi og núna eru Guðlaugstungur og Þjórsárver stærstu svæðin.
Það er Dr. Gísli Már Gíslason vatnalíffræðingur sem flytur erindi sem hann nefnir Þjórsárver – náttúra og náttúruverndarsaga.
Árið 1969 voru settar fram tillögur um að sökkva öllum verunum undir 200 km2 lón. Með ötulli baráttu einstaklinga, náttúruverndarsamtaka og Náttúruverndarráðs Íslands hefur stærstum hluta þeirra verðið forðað frá því að sökkva undir vatn. Með samkomulagi Náttúruverndarráðs og Landsvirkjunar var verunum austan Þjórsár fórnað undir Kvíslaveitu, sem flytur um 40% af Þjórsá við Norðlingaöldu til Þjórisvatns. Í samkomulaginu var lón við Norðlingaöldu sett í bið og rannsakað hvort það mundi skerða náttúruverndargildi veranna. Náttúrvernd ríkisins, arftaki Náttúruverndarráðs, komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki ásættanlegt, en með nýrri löggjöf um mat á umhverfisáhrifum telur Landsvirkjun sig ekki bundna af þessu samkomulagi. Skýrt verður frá sögu náttúruverndar í Þjórsárverum og þeirri einkennilegu stöðu sem er komin upp núna í kjölfar samþykktar Alþingis á þingsályktunartillögu um Rammaáæltun um verndun og nýtingu virkjanakosta.“
Gísli Már Gíslason er fæddur 1950, lauk BS prófi í líffræði 1973 frá HÍ, 4. árs prófi frá sama skóla 1974 og PhD prófi frá Háskólanum í Newcastle upon Tyne 1978. Gísli hefur verið kennari í vatnalíffræði við HÍ frá 1977, þar af prófessor frá 1988. Gísli sat í Náttúruverndarráði 1987-2000 og hefur verið formaður Þjórsárveranefndar frá 1987. Hann sat í faghópi um náttúrufar í 1. og 2. áfanga Rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landssvæða.
Ljósmynd: Í Þjórsárverum, Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
NA „Þjórsárver – náttúra og náttúruverndarsaga“, Náttúran.is: 24. janúar 2014 URL: http://nature.is/d/2014/01/24/thjorsarver-nattura-og-natturuverndarsaga/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.