Árleg garðfuglahelgi er nú um helgina
Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar verður dagana 24. - 27. jan. 2014. Framkvæmd athugunarinnar er einföld. Það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í klukkutíma á tímabilinu og skrá hjá sér hvaða fuglar koma í garðinn og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir. Þeir sem gefa fuglum að staðaldri eru sérstaklega hvattir til þess að taka þátt. Fólki sem ekki hefur gefið fuglum áður er bent á að gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum fyrr með því að gefa daglega til að lokka að fugla. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund. Upplýsingar um garðfugla og fóðrun þeirra er hægt að finna á Garðfuglavefnum og í Garðfuglabæklingi Fuglaverndar sem má fá á skrifstofu félagsins. Frekari upplýsingar um garðfuglahelgina er að finna á fuglavernd.is.
Áhugamenn um fugla eru hvattir til að taka þátt í garðfuglatalningunni, þetta er einfalt og skemmtilegt verkefni.
Umsjónarmenn garðfuglaskoðunarinnar, þeir Ólafur Einarsson (s.8999744) og Örn Óskarsson (s.8469783), veita svo gjarnan upplýsingar.
Ljósmynd: Silkitoppur hópast í kringlum epli - en þær hafa sést víða í vetur. Óreglulegur gestur sem kemur stundum í stórum hópum á haustin og á veturnar. Ljósmynd: Örn Óskarsson.
Birt:
Tilvitnun:
Hólmfríður Arnardóttir „Árleg garðfuglahelgi er nú um helgina“, Náttúran.is: 23. janúar 2014 URL: http://nature.is/d/2014/01/23/arleg-gardfuglahelgi-er-nu-um-helgina/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.