Verkefnisstjórn 3. áfanga áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlunar) hefur kynnt drög að tillögu sinni um flokkun virkjunarkosta í neðri hluta Þjórsár. Samkvæmt drögunum leggur verkefnisstjórnin til að Hvammsvirkjun verði flutt í orkunýtingarflokk. Að öðru leyti gerir verkefnisstjórnin ekki tillögu á þessu stigi um breytingu á þeirri röðun virkjunarkosta sem fram kemur í þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða sem samþykkt var á Alþingi 14. janúar 2013.

Á vef rammaáætlunar  www.rammaaaetlun.is  er að finna greinargerð verkefnisstjórnar með drögunum og önnur fylgiskjöl.

Samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun skulu fara fram tvö aðskilin umsagnarferli um annars vegar drög að tillögu verkefnisstjórnar og hins vegar tillöguna sjálfa þar sem almenningur, stofnanir, stjórnvöld, félagasamtök og hagsmunaaðilar hafa tækifæri til að koma athugasemdum á framfæri. Það ferli sem nú hefst er hið fyrra og er hægt að koma athugasemdum um tillögudrögin á framfæri við starfsmann verkefnisstjórnar á netfangið rammaaaetlun@rammaaaetlun.is eða í pósti merkt Herdísi Schopka á umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík, fyrir lok föstudagsins 13. desember 2013. Að liðnum umsagnarfresti leggur verkefnisstjórn fram tillögu sína sem þá fer í 12 vikna almennt umsagnarferli.

Birt:
6. desember 2013
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Drög að tillögu verkefnisstjórnar um flokkun virkjunarkosta kynnt“, Náttúran.is: 6. desember 2013 URL: http://nature.is/d/2013/12/06/drog-ad-tillogu-verkefnisstjornar-um-flokkun-virkj/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: