Fyrirtækin Síminn, Pósturinn og Græn framtíð standa fyrir farsímasöfnunarátaki 6.-16. desember næstkomandi. Pósturinn sendir sérhannaða  plastpoka inn á öll heimili í landinu sem viðtakendur eru hvattir til að nýta undir bilaða eða afgangs farsíma. Símunum er svo skilað til Símans, þaðan sem þeir rata í hendur Grænnar framtíðar, sem kemur þeim í verð með endurnýtingu og endurvinnslu. Fyrirtæki geta einnig safnað innan sinna raða.

Allur ágóði af símum sem safnast á þessu tímabili mun renna til styrktar góðum málefnum og er Skógræktarfélag Íslands eitt þeirra. Fjögur góðgerðarfélög eru tilgreind á plastpokanum og munu þeir sem skila inn símum geta merkt við hvaða félag óskað er eftir að styrkja. Hin félögin sem eru gefin upp eru Samhjálp, Stígamót og Hjálparsími Rauða krossins 1717.
 
Hvetjum við að sjálfsögðu alla skógræktarfélaga og annað skógræktarfólk til að losa sig við gömlu símana, sem safna ryki í skúffum hér og þar og styðja við Skógræktarfélag Íslands í leiðinni!
 
Stjórn Skógræktarfélags Íslands hefur ákveðið að þeir fjármunir sem safnast, munu renna til Yrkju - sjóðs æskunnar til ræktunar landsins, en það er eitt þeirra verkefna sem félagið hefur umsjón með. Yrkjusjóður úthlutar trjáplöntum til grunnskólabarna til gróðursetningar.

Myndin er af pokanum sem dreift hefur verið til símasöfnunarinnar.

Birt:
6. desember 2013
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Farsímasöfnun frá 6.- 16. desember“, Náttúran.is: 6. desember 2013 URL: http://nature.is/d/2013/12/06/farsimasofnun-fra-6-16-desember/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: