Svanurinn og Umhverfismerki ESB
Í fyrra kom út Jákvæðar sögur af Svaninum í smærri byggðum hjá Norrænu ráðherranefndinni hefti með 18 frásögnum af reynslu lítilla fyrirtækja í smærri byggðum á Norðurlöndunum sem fengið hafa vörur sínar eða þjónustu vottaða með Norræna umhverfismerkinu Svaninum eða Umhverfismerki Evrópusambandsins. Stefán Gíslason hjá UMÍS ehf. Environice safnaði frásögnunum og bjó þær til útgáfu, en verkið var fjármagnað af Smásamfélagahópi Norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfismál.
Nú hefur efnið verið þýtt og gefið út á íslensku. Hægt er að hala ritinu niður, smella hér, eða panta í prentútgáfu og fá sent heim.
Samstarf Norðurlandanna um norræna umhverfismerkið Svaninn hefur skilað miklum árangri og er Svanurinn nú eitt öflugasta umhverfismerkið í heiminum (samkvæmt alþjóðlegri könnun sem breska fyrirtækið Environmental Resources Management gerði árið 2008). Umhverfismerki Evrópusambandsins var einnig meðal fjögurra efstu merkjanna í sömu könnun.
Margir álíta að umhverfisvottun á borð við Norræna Svaninn sé aðeins fyrir stærri fyrirtæki með marga starfsmenn og mikla veltu. Frásagnirnar í heftinu sýna hins vegar að vottun af þessu tagi er raunhæfur kostur, jafnvel fyrir örsmá fyrirtæki. Minnsta fyrirtækið sem kemur við sögu í heftinu er Junno & Unno Hylderne i Óðinsvéum. Eigandinn Margareta Norrgård er eini starfsmaðurinn og sinnir fyrirtækinu reyndar aðeins í hálfu starfi meðfram húsmóðurhlutverkinu. Hún framleiðir skóhillur og hefur enn sem komið er aðeins selt örfá stykki. En Svanurinn var með í þróun vörunnar frá byrjun, því að „Svanurinn er staðfestingin sem viðskiptavinirnir þurfa að fá til að vita að þetta sé reglulega góð og örugg vara“, eins og Margareta orðar það sjálf.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Svanurinn og Umhverfismerki ESB“, Náttúran.is: 5. desember 2013 URL: http://nature.is/d/2013/12/05/svanurinn-og-umhverfismerki-esb/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.