Árósasamningurinn logoUmhverfis- og auðlindaráðuneytið undirbýr nú gerð fyrstu skýrslu sinnar um stöðu innleiðingar Árósasamningsins hér á landi, en aðildarríkjum hans ber að skila slíkum skýrslum til skrifstofu samningsins á þriggja ára fresti. Ráðuneytið mun hafa samráð við umhverfisverndarsamtök við gerð skýrslunnar en öllum er velkomið að koma með ábendingar varðandi efni hennar.

Ísland fullgilti í október 2011 Árósasamninginn um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Þar með varð Ísland fullgildur aðili að samningnum og því starfi sem tengist honum. Auk aðildarríkjaráðstefnu á 3ja ára fresti og ríkjafunda sem haldnir eru árlega eru á vettvangi samningsins reknir vinnuhópar um helstu málefni samningsins, þ.e. aðgang að upplýsingum, þátttökuréttindi almennings og aðgang að réttlátri málsmeðferð. Þá er rekin sérstök nefnd um framfylgni (Compliance Committee) sem fylgist með framkvæmd samningsins í aðildarríkjum hans.

Á þriggja ára fresti ber aðildarríkjum að skila aðildarríkjaskýrslu til skrifstofu samningsins þar sem farið er yfir stöðu innleiðingar ákvæða samningsins í viðkomandi ríki. Síðast skiluðu aðildarríkin skýrslu af þessu tagi árið 2011 og nú í ársbyrjun 2014 er komið að skilum á ný og verða þær skýrslur til umræðu á aðildarríkjaráðstefnu samningsins næsta sumar. Því er nú komið að Íslandi að skila sinni fyrstu aðildarríkisskýrslu.

Þar sem Árósasamningurinn fjallar um þátttökuréttindi almennings er eðli málsins samkvæmt áhersla lögð á að stjórnvöld hafi samráð við almenning og samtök hans við gerð skýrslunnar. Mikilvægt er að öll sjónarmið skili sér í skýrsluna, bæði sjónarmið stjórnvalda og sjónarmið almennings og félagasamtaka sem nýta sér þann rétt sem aðild að samningnum veitir.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið vill vekja athygli á því að umrædd skýrsla er í undirbúningi. Á næstunni verða birt hér á síðunni drög að skýrslunni til kynningar og athugasemda en auk þess mun ráðuneytið eiga sérstakt samráð við umhverfisverndarsamtök um efni hennar. Þá vill ráðuneytið nú þegar hvetja alla þá sem áhuga hafa til að koma með ábendingar eða annað sem varðar væntanlega skýrslu og má senda þær á netfangið postur@uar.is.

 

Birt:
23. nóvember 2013
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Undirbúningur landsskýrslu um innleiðingu Árósasamningsins“, Náttúran.is: 23. nóvember 2013 URL: http://nature.is/d/2013/11/23/undirbuningur-landsskyrslu-um-innleidingu-arosasam/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: