Samkomulag í Varsjá – Grunnur lagður að hnattrænum loftslagssamningi 2015
19. aðildarríkjaþingi Loftslagssamnings S.þ. lauk í dag í Varsjá í Póllandi. Meginefni fundarins var að setja dagskrá og áherslur í viðræðum um nýjan hnattrænan samning um minnkun losunar, sem ljúka á 2015. Einnig náðist árangur varðandi aðgerðir til verndunar skóga og um aðgerðir til að bæta tjón af völdum loftslagstengdra hamfara. Einnig voru fjármál í brennidepli fundarins, en þróunarríki vildu fá skýrari mynd af loforðum þar; þróuð ríki hafa sett 10 milljarða dollara aukalega í loftslagsmál á undanförnum árum og gefið vilyrði fyrir að fjármögnun geti numið 100 milljörðum árlega 2020, en ekki liggur fyrir hvernig slíkt fjármagn verði tryggt. Gengið var frá samþykkt þingsins um leiðir til þess, en ljóst að áfram verður tekist á um þessi mál.
Á 18. aðildarríkjaþinginu 2012 var gengið frá framlengingu Kýótó-bókunarinnar á tímabilinu 2013-2020 og er Ísland eitt af 38 ríkjum sem tekur á sig skuldbindingar þar um minnkun losunar. Þessi ríki eru ábyrg fyrir tæplega 15% af heimslosun og því er ljóst að fleiri ríki þurfa að koma með meiri alvöru að lausn loftslagsvandans. Viðræðurnar um nýtt hnattrænt samkomulag eiga að stuðla að því, en þeim á að ljúka 2015 og nýtt samkomulag að taka gildi 2020.
Ísland lagði í ræðu sinni áherslu á nauðsyn þess að öll ríki kæmu að lausn loftslagsvandans og miklu skipti að viðræður færu af stað af þunga um nýtt hnattrænt samkomulag fram að 2015. Skoða þyrfti allar aðgerðir í því samhengi, þar á meðal aðgerðir í skógrækt og landnýtingu, sem fælu í sér margvísleg tækifæri auk loftslagsávinningsins. Einnig þyrfti að tryggja aðkomu kvenna jafnt sem karla að ákvörðunartöku og aðgerðum í loftslagsmálum. Ísland greindi frá jarðhitaverkefnum í Eþíópíu og öðrum löndum í austanverðri Afríku, sem stuðluðu að nýtingu loftslagsvænnar orku þar. Vísindin gæfu ekki tilefni til bjartsýni varðandi loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra. Vísað var til nýrra úttekta Norðurskautsráðsins, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að loftslagsbreytingar og súrnun hafsins séu helsta ógn við vistkerfi á Norðurslóðum. Einnig var vísað til orða Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sem sagði í ræðu sinni á þinginu að í heimsókn sinni til Íslands hefði honum verið tjáð að landið kynni að verða íslaust vegna loftslagsbreytinga. Framkvæmdastjórinn hefur boðað til leiðtogafundar á næsta ári til að reyna að ýta á viðræður um lausn loftslagsvandans.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Samkomulag í Varsjá – Grunnur lagður að hnattrænum loftslagssamningi 2015“, Náttúran.is: 23. nóvember 2013 URL: http://nature.is/d/2013/11/23/samkomulag-i-varsja-grunnur-lagdur-ad-hnattraenum-/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.