Auðveldum Endurvinnslu - Áskorun Breytanda og Reykvíkinga til borgarstjórnar
Í dag, miðvikudaginn 20. nóvember, kl. 10.00 munu Breytendur afhenta Jóni Gnarr borgarstjóra undirskriftir herferðarinnar “Auðveldum Endurvinnslu” í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Breytendur – Changemaker á Íslandi, er hreyfing ungs fólks sem hefur það að markmiði að gera heiminn að betri stað með jákvæðum og raunhæfum aðgerðum. Í ár gerðum við sorphirðumál Reykjavíkurborgar að umfjöllunarefni okkar. Ástandið er nefninlega enn svo öfugsnúið að það kostar pening að flokka rusl, en ódýrast og einfaldast er fyrir almenning að henda sínu sorpi öllu í gráu tunnuna. Þau sem vilja flokka þurfa annað hvort að greiða fyrir sína Endurvinnslutunnu sjálf, eða gera sér reglulegar ferðir í móttökustöðvar gámafélaganna. Þetta er ekki hvetjandi sorphirðustefna. Bláa tunnan er skref í rétta átt, en leysir ekki nema hluta vandans. Skrefið þarf að vera stærra.
Við beinum sjónum okkar að Reykjavík ekki aðeins vegna þess að hún er höfuðborg landsins, sem stærsta sveitarfélagið ætti hún að vera í fararbroddi í nýjungum í sorphirðumálum sem öðrum. Svo er hins vegar komið að mörg sveitarfélög á landsbyggðinni teljum við lengra komin á veg. Á Stykkishólmi eru auk gráu tunnunnar græn tunna, sem ekki fer aðeins í pappi, pappír og fernur heldur einnig plast, málmar og rafhlöður. Þá er einnig brúnt hólf fyrir lífrænan úrgang. Þetta er hvetjandi kerfi sem gerir flokkun sorps einfaldari í framkvæmd.Í drögum að Landsáætlun um úrgang stendur:
“Sveitarfélög þurfa að hafa forgöngu um eða bjóða upp á flokkun á úrgangi til endurvinnslu, bæði fyrir íbúa og fyrirtæki og veita ráðleggingar um hvernig eigi að draga úr myndun úrgangs. Þau þurfa í samvinnu við sína íbúa að fjárfesta í innviðum sem auðvelda flokkun úrgangs til endurvinnslu.”1
Þessari skyldu sinni köllum við eftir að Reykjavíkurborg sinni enn betur. Ef þetta er hægt á landsbyggðinni þar er það hægt í borginni. Því hljóma kröfur okkar svona:
Kominn er tími til að endurbæta innviði sorphirðu í Reykjavík. Við skorum á Reykjavíkurborg að gera það auðvelt fyrir borgarbúa að flokka!
Til þess ætti að liggja jákvæður fjárhagslegur hvati (sparnaður) en ekki neikvæður (sektir). Þetta mun skila betri lífsgæðum fyrir borgarbúa, og örugglega betri fjárhag í sveitarfélaginu þegar til lengri tíma er litið. Þá eru ótalin þau hnattrænu áhrif sem sorpurðun íslendinga hefur.
Til stuðnings kröfunum hefur hópur okkar safnað undirskriftum við ýmis skemmtileg tilefni í sumar. Þeim söfnuðum við á endurnýttar mjólkurfernur, og lítum við á þær sem táknrænt gildi um almennan vilja flestra borgarbúa.
Ljósmyndir: Breytendur sem fernur og við söfnun undirskrifta í Reykjavík í sumar.
Birt:
Tilvitnun:
Breytendur „Auðveldum Endurvinnslu - Áskorun Breytanda og Reykvíkinga til borgarstjórnar“, Náttúran.is: 19. nóvember 2013 URL: http://nature.is/d/2013/11/19/audveldum-endurvinnslu-skorun-breytanda-og-reykvik/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.