Endurskoðun hugtaksins sjálfbær þróun
Í dag þ. 27. nóvember kl. 13:30 heldur Dr. Dennis Meadows fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn er haldinn á vegum Stofnunar Sæmundar fróða, en Dr. Meadows mun fjalla um nauðsyn þess að endurskoða hugtakið sjálfbær þróun. Þeir ríku geta ekki gert ráð fyrir að fá sífellt meira á meðan að þeir fátæku berjast við að ná sömu kjörum. Þjóðfélög sem byggja á markaðshyggju og vergum veldisvexti geta ekki gengið til lengdar, því vöxturinn krefst orku og ótakmarkaðra auðlinda. Sjálfbær þróun þarf að stuðla að skilvirkum breytingum, sem verða til með þátttöku fólks en ekki með þvingunum stjórnvalda. Það þarf að auka seiglu og viðnámsþrótt samfélaga og bjóða mismunandi lausnir því engin ein hentar öllum. Tengja þyrfti þá sem leiða vilja þessar breytingar, og hafa í huga að þær munu taka langan tíma.
Dr. Dennis Meadows er prófessor emeritus í kerfisstjórnun og fyrrverandi forstöðumaður stofnunar um stefnumótun og félagsvísindi við Háskólann í New Hampshire, en rekur nú rannsóknastofu um gagnvirkt nám. Dr. Meadows er þekktastur fyrir að vera meðhöfundur skýrslunnar Limits to Growth, sem samin var fyrir Club of Rome árið 1972. Hann hefur verið prófessor á þremur fræðasviðum: stjórnunarfræðum, verkfræði og félagsvísindum og flutt fyrirlestra í meira en 50 löndum. Hann hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir framlag sitt til vísinda, þar á meðal Japansverðlaunin 2009 - en þau eru veitt fyrir frumleg og framúrskarandi afrek í vísindum og tækni sem stuðla að farsæld mannkynsins.
Takmörk vaxtar nýtti kvik kerfislíkön til að sýna afleiðingar samspils fólksfjölgunar og takmarkaðra náttúruauðlinda. Tilgangur var ekki að spá ákveðið um framtíðina, heldur að kanna samskipti veldisvaxtar og takmarkaðra auðlinda. Nú, 40 árum eftir að bókin kom út, reynist líkanið hafa staðist og þau vandamál sem mannkynið stendur frammi fyrir eru of margir jarðarbúar, eyðilegging vistkerfa, mengun og þverrun náttúruauðlinda.
Fyrirlesturinn verður á ensku.
Birt:
Tilvitnun:
Kristín Vala Ragnarsdóttir „Endurskoðun hugtaksins sjálfbær þróun“, Náttúran.is: 27. nóvember 2013 URL: http://nature.is/d/2013/11/19/endurskodun-hugtaksins-sjalfbaer-throun/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. nóvember 2013
breytt: 27. nóvember 2013