Við setngingu umhverfisþings s.l. föstudag tilkynnti ráðherrann að þegar nýju nattúruverndarlögin væru frá yrðu smíðuð enn nýrri lög í samráði og samlyndi við alla aðila (væntanlega þó með áherslu á framkvæmdaaðila því aðrir eru mest öfgamenn í augum ráðherra). Á ríkisstjórnarfundi um morguninn kynnti síðan Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfisráðherra, frumvarp til laga um „… afturköllun laga um náttúruvernd nr. 60/2013 sem voru samþykkt á Alþingi rétt fyrir þinglok í vor. Lögum þessum var ætlað að taka gildi 1. apríl 2014." eins og það var orðað í fréttatilkynningu ráðuneytisins þann 24. september s.l. Nema að þetta orðalag - afturköllun - þótti heldur ólánlegt og í dagskrá ríkisstjórnarfundarins á föstudaginn stóð að umhverfisráðherra myndi leggja fram „Frumvarp til laga um brottfall laga um náttúruvernd, nr. 60/2013."

Á hinn bóginn kynnti ráðherra ekkert nýtt frumvarp um ný lög um náttúruvernd. Það verður aldrei lagt fram af hans hálfu og væntanlega ekki í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Margir furða sig á af hverju ráðherrann lætur ekki duga að endurskoða þau ákvæði nýju laganna sem hann telur of umdeild - eða er ósáttur við. Að mínu viti er ástæðan sú að yfirlýstar ástæður þess að Sigurður Ingi Jóhannsson vill afturkalla ný náttúruverndarlög („… að ekki hefði verið haft nægilegt samráð við fjölmarga aðila og sérfræðinga við undirbúning frumvarpsins,") eru ekki hinar sömu og raunverulega liggja að baki óánægju hans, Jóns Gunnarssonar og fleiri hagmunaaðila. Þau atriði sem þeir setja fyrir sig eru lögleiðing varúðarreglunnar og greiðslureglunnar í íslensk lög. Jafnframt eru það hert efnisákvæði 37. gr. gildandi laga (nú 57. gr) þar sem mælt er fyrir um vernd sérstakra náttúrufyrirbæra, hraunmyndana, votlendis og fleira.

Norðlingaölduveita er skýrt dæmi um þetta. Í umræðum um Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun) þann 24. apríl 2012, sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, þá óbreyttur þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurlandskjördæmi:

… Ég spyr: Nú hefur verið talsvert mikið atvinnuleysi í landinu, 7,5% atvinnuleysi, þúsundir heimila eru ofurskuldsett og fjöldi fólks hefur flutt úr landi. Við horfum upp á hagkvæma virkjunarkosti í Norðlingaöldu og í neðri hluta Þjórsár, hvort sem það eru tveir eða þrír virkjunarkostir — er ekkert varúðarsjónarmið sem skynsamlegt væri að horfa til með tilliti til fólksins í landinu, að fólk hafi atvinnu og möguleika á að skapa sér og sínu fólki lífsviðurværi? Á eitt varúðarsjónarmið í umhverfisvernd að ýta öllu öðru til hliðar, meira að segja hagkvæmum virkjunarkosti eins og Norðlingaöldu, sem er kannski sá virkjunarkostur sem hefur minnst umhverfisleg áhrif? [leturbr. höf.]

Í nýjum lögum um náttúruvernd segir:

9. gr. Varúðarregla.
Þegar tekin er ákvörðun, t.d. um skipulag, framkvæmd eða starfsleyfi, án þess að fyrir liggi með nægilegri vissu hvaða áhrif hún hefur á náttúruna skal leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum. Ef hætta er á alvarlegum eða óafturkræfum náttúruspjöllum skal skorti á vísindalegri þekkingu ekki beitt sem rökum til að fresta eða láta hjá líða að grípa til skilvirkra aðgerða sem geta komið í veg fyrir spjöllin eða dregið úr þeim.

Það er hér sem skóinn kreppir. Þetta þolir ekki sá er gegnir embætti umhverfis- og auðlindaráðherra. Enda á hann ekkert annað erindi í því ráðuneyti líkt og skýrt kom fram í setningarræðu hans á umhverfisþingi og eftir skreppitúr hans á ríkisstjornarfund sama dag.

Ljósmynd: Sigurður Ingi Jóhannsson, af vef Umhverfis- og auðlindráðuneytisins.

Birt:
10. nóvember 2013
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Frumvarp til laga um brottfall laga um náttúruvernd, nr. 60/2013“, Náttúran.is: 10. nóvember 2013 URL: http://nature.is/d/2013/11/10/frumvarp-til-laga-um-brottfall-laga-um-natturuvern/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: