GálgahraunNú fer lögregla höfuðborgarsvæðisins hamförum í þágu verktaka og Vegagerðarinnar. Nokkrir ástsælustu menn íslenskarar menningar eru beittir valdi og dregnir til eins kjötsekkir svo hörmung er uppá að horfa. Enn er ólokið málaferlum vegna lögbannskröfu fjögurra náttúruverndarsamtaka og vegna útrunnins umhverfismats vegagerðar við Gálgahraun á Álftanesi. Lagagrunvöllur framkvæmdarinnar þar með ótryggur. 
Lögreglumenn sem svarið hafa eið að því að verja lög og reglu í þessu landi undir mottóinu víðkunna; „Með lögum skal land byggja“, virðast hafa gleymt seinni hendingunni; „og með ólögum eyða“. Þessir þjónar réttivísinnar virðast hafa tekið að sér að verja lögleysu og ryðja jarðýtum farveg gegnum hraunið sem eitt sinn var vettvangur lögleysu sem hér var stunduð af íslenskum embættismönnum í nafni erlendra valdhafa.

Ekkert hefur breyst. Enn veður valdastéttin um lög og rétt á skítugum skónum og dröslar nú Ómari Ragnarssyni, hvers afmælisdagur var gerður að Degi íslenskrar náttúru, eins og eiinhverju illmenni milli þúfna og hraunnibba sem jarðýturnar vilja slétta fyrir veg. Fyrir veg sem er einhver sá allra ónauðsynlegasti í sögu landsins og kostnaðurinn hefiði dugað til að draga tækjakaup Landspítala að landi.

Þessi framkoma sýnir þá lögleysu sem sitjandi framkvæmdavald vill við hafa og hefur lýst yfir að sé þeirra helsta forgangsverkefni. Að afturkalla lög og samkomulag um náttúruvernd, skatttekjur og annað sem þeim finnst ekki passa.  Og stilla síðan upp smjörklípum sem valda dreifðum átökum og deilum svo aðalatriðin gleymist í hita leiksins.

Birt:
21. október 2013
Höfundur:
Einar Bergmundur
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „... með ólögum eyða“, Náttúran.is: 21. október 2013 URL: http://nature.is/d/2013/10/21/med-ologum-eyda/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. október 2013

Skilaboð: