Málþing og greinargerð um myrkurgæði
Starfshópur um myrkurgæði á Íslandi hefur skilað umhverfis- og auðlindaráðherra greinargerð sinni þar sem settar eru fram þrettán tillögur um að varðveita myrkurgæði og sporna við ljósmengun á Íslandi, bæði í þéttbýli og dreifbýli.
Hópurinn bendir á að myrkurgæðum hafi hrakað verulega á Íslandi undanfarna áratugi, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, og telur að ljósmengun sé meiri hérlendis en á sambærilegum svæðum í grannlöndunum. Í greinargerðinni segir að myrkurgæði séu hluti af lífsgæðum almennings og einnig er bent á gagn sem ferðaþjónusta hefur af myrkurgæðum, svo sem í norðurljósaferðum og ýmissi annarri vetrarferðamennsku. Þá tengjast myrkurgæði og orkusparnaður í bókhaldi fjölskyldna, sveitarfélaga og ríkis.
Greinargerðin skiptist í 20 kafla og er í þeim fjallað um ýmsa þætti myrkurgæða og ljósmengunar heima og erlendis. Meðal annars er fjallað um þróun myrkurgæða á Íslandi síðustu áratugi, um mælingu myrkurgæða og sagt frá slíkri mælingu á höfuðborgarsvæðinu, fjallað um myrkurgæði af sjónarhóli stjörnuáhugamanna, sveitarstjórna og ferðaþjónustu, kannaðar heimildir um áhrif ljósmengunar á heilsu manna og atferli dýra, sagt frá ljósvist í skipulagi, fjallað um myrkurgarða og önnur myrkursvæði og leiðbeint um flóðlýsingu með myndum af höfuðborgarsvæðinu.
Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, skipaði starfshópinn í mars 2012 og voru í honum þau Mörður Árnason, formaður, Andrés Ingi Jónsson, Inga Sigrún Atladóttir, Íris Bjargmundardóttir og Snævarr Guðmundsson. Hermann Sveinbjörnsson, sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, starfaði með hópnum.
Greinargerðin er gefin út rafrænt og má skoða hana eða sækja á slóðinni
http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/Myrkur-3-10.pdf
Málþing um myrkurgæði
Í tilefni af útgáfu greinargerðarinnar um Myrkurgæði á Íslandi verður haldið málþing um myrkurgæði og ljósmengun miðvikudaginn 23. október, kl. 10-12, í fundarsal Þjóðminjasafnsins.
Mörður Árnason formaður starfshópsins kynnir greinargerð hans um myrkurgæði og ljósmengun. Síðan verða flutt stutt erindi:
- Áhugamenn horfa til himins.
Sverrir Guðmundsson, framhaldsskólakennari og stjórnarmaður í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness. - Hvað sjást margar stjörnur? - Myrkurgæði á höfuðborgarsvæðinu.
Snævarr Guðmundsson landfræðingur. - Hlutverk OR við götulýsingu.
Hilmar Jónsson starfsmaður Orkuveitu Reykjavíkur. - Ljósvistarskipulag - markmið og ávinningur.
Guðjón L. Sigurðsson lýsingarhönnuður og
Rósa Dögg Þorsteinsdóttir lýsingarhönnuður og innanhússarkitekt.
Að loknum erindum verða pallborðsumræður og eru þátttakendur þar auk framsögumanna þau Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum og formaður Ferðafélags Íslands, og Svandís Svavarsdóttir, alþingismaður og fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra.
Ljósmynd: niðdimm nótt, Einar Bergmundur
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Málþing og greinargerð um myrkurgæði“, Náttúran.is: 16. október 2013 URL: http://nature.is/d/2013/10/16/malthing-og-greinargerd-um-myrkurgaedi/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.