Deilan um Gálgahraun væri sennilega óþörf ef ný lög um náttúruvernd hefðu verið í gildi þegar hún hófst. Í 57. gr. nýju laganna um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja segir:

Óheimilt er að raska vistkerfum og jarðminjum sem taldar eru upp í 1. og 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til og sýnt þyki að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. (3. mgr.)

Dæmi um jarðminjar eru skv. 2. mgr. 57. gr. eldvörp, eldhraun, gervigígar og hraunhellar sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma,

Mótsvarandi grein náttúruverndarlaga frá 1999 er mun veikari. Í 37. gr. þeirra laga sem Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisrráðherra vill hverfa aftur til segir:

Eftirtaldar [jarðmyndanir og vistkerfi]1) njóta sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er:

   a. eldvörp, gervigígar og eldhraun,

Orðalag gömlu laganna: „.... skal forðast röskun þeirra eins og kostur er" hefur reynst haldlaust. Framkvæmdaraðilar og leyfisveitendur hafa að sjálfsögðu haldið því fram að reynt hafi verið að forðast náttúrusjpjöll eins og kostur en 37. gr. gildandi laga hefur í reynd veitt þeim sjálfdæmi um hvaða skilining ber að leggja í orðin eins og kostur er.

Nýju náttúruverndarlögin sem samþykkt voru s.l. vor og eiga að taka gildi þann 1. apríl n.k. kveða mun skýrar á um að ekki megi raska jarðminjum eins og Gálgahrauni nema að brýna nauðsyn beri til og sýnt þyki að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. Vegagerð ríkisins og Garðabær geta með rökum haldið því fram að brýna nauðsyn beri til eða bæta úr samgöngum á Álftanesi en að halda því fram að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi væri fjarstæða.

Þá ber einnig að hafa í huga 9. gr. nýju náttúruverndarlaganna:

9. gr. Varúðarregla.
Þegar tekin er ákvörðun, t.d. um skipulag, framkvæmd eða starfsleyfi, án þess að fyrir liggi með nægilegri vissu hvaða áhrif hún hefur á náttúruna skal leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum. Ef hætta er á alvarlegum eða óafturkræfum náttúruspjöllum skal skorti á vísindalegri þekkingu ekki beitt sem rökum til að fresta eða láta hjá líða að grípa til skilvirkra aðgerða sem geta komið í veg fyrir spjöllin eða dregið úr þeim.

Ennfremur ber að hafa í huga 11. gr. nýju laganna:

11. gr. Ábyrgð á kostnaði [greiðslureglan].
Framkvæmdaraðili skal bera kostnað af því að koma í veg fyrir eða takmarka spjöll á náttúrunni sem af framkvæmd hans hlýst að því marki sem það telst ekki ósanngjarnt með hliðsjón af eðli framkvæmdarinnar og tjónsins (greiðslureglan).

Í umræðu á Alþingi í gær um þau áform umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar að afturkalla ný lög um náttúruvernd sagði ráðherra að grunnurinn [í nýju náttúruverndarlögunum] sé of mikið boð og bönn og það þurfi að lagfæra grunninn til að ná fram þeirri víðtæku sátt sem ég vil svo gjarnan ná fram. Þetta er alrangt hjá Sigurði Inga. Grunnur hinna nýju laga um náttúruvernd eru meginreglur umhverfisréttarins, varúðarreglan og greiðslureglan. Þessar meginreglur umhverfisréttarins leggja grunninn að lagasetningu í öllum þeim ríkjum sem við viljum bera okkur saman við og eru forsenda þess að Ísland verði í fararbroddi í umhverfismálum á heimsvísu og öðrum þjóðum fyrirmynd á sviði umhverfisverndar.  líkt og segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Á grundvelli varúðarreglunnar voru efnisákvæði laganna um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja (57. gr.) styrkt verulega í samræmi við Hvítbók um náttúruvernd sem gefin var út árið 2011 og lagði grunninn að nýju náttúruverndarlögunum.

Umhverfis- og auðlindaráðherra vill afturkalla nýju náttúruverndarlögin til að Vegagerð ríkisins, Landsvirkjun, Impregilo eða aðrir verktakar geti ruðst óhindrað yfir sérstakar jarðminjar eins og Gálgahraun er. Ráðherra og stuðningsmenn hans á þingi vilja að umhverfisráðherra geti fyrirskipað umhverfisráðuneytinu að affriðlýsa friðlýst svæði líkt og gert var með Kringilsárrana. Tal ráðherra um ferðafrelsi fatlaðra og/eða umgengnisrétt bænda við þúfurnar sínar er einungis fyrrisláttur. Fyrir honum er náttúran eins og Gálgahraun sem skal rist í tvennt með jarðýtum og dýnamíti.

Birt:
15. október 2013
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Gálgahraun í ljósi nýrra náttúruverndarlaga“, Náttúran.is: 15. október 2013 URL: http://nature.is/d/2013/10/15/galgahraun-i-ljosi-nyrra-natturuverndarlaga/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: