Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skipað Hjalta Þór Vignisson formann stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs.

Hjalti Þór hefur verið bæjarstjóri á Hornafirði frá árinu 2006 en lætur þar af störfum um næstu mánaðarmót þegar hann tekur til starfa hjá sjávarútvegsfyrirtækinu Iceland Pelagic. Áður starfaði hann m.a. sem forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs bæjarins.

Hjalti er með meistaragráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur gegnt ýmum trúnaðarstörfum í gegn um tíðina og m.a. setið í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og var formaður svæðisráðs Suðursvæðis þjóðgarðsins frá árinu 2007 þar til í ár. Hann er því vel kunnugur starfsemi og stjórnarfyrirkomulagi Vatnajökulsþjóðgarðs.

Kristveig Sigurðardóttir, fyrrverandi formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs, lætur af störfum að eigin ósk. Hún hefur verið formaður stjórnarinnar frá því í nóvember 2010. Eru henni þökkuð góð störf í þágu þjóðgarðsins.

Umhverfis- og auðlindaráðherra skipar formann og varaformann stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs og gegnir Rósa Björk Halldórsdóttir áfram stöðu varaformanns. Aðrir í stjórn eru formenn fjögurra svæðisráða þjóðgarðsins og fulltrúi tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum. Einn fulltrúi tilnefndur af útivistarsamtökum á áheyrnaraðild að fundum stjórnarinnar.

Heimasíða Vatnajökulsþjóðgarðs.

Birt:
3. október 2013
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Hjalti Þór formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs“, Náttúran.is: 3. október 2013 URL: http://nature.is/d/2013/10/03/hjalti-thor-formadur-stjornar-vatnajokulsthjodgard/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: