Skyldi nokkur hafa efast um að við mennirnir erum að hafa áhrif á loftslagið á jörðinni þá afsannar skýrsla loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna það, segir Ann-Kristine Johansson, formaður umhverfis- og auðlindanefndar Norðurlandaráðs. Johansson vill að Norræna ráðherranefndin og norrænu ríkisstjórnirnar sýni kjark og þor í alþjóðlegum loftslagssamningum.

Í 25 ár hefur loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna lagt sitt af mörkum til að upplýsa um samband koldíoxíðs og annarra gróðurhúslofttegunda og loftslags jarðar. Í skýrslu sem kynnt var í Stokkhólmi á föstudag eru enn skýrari línur um loftslagsbreytingarnar en í fyrri skýrslum.

„Sú hlýnun jarðar sem nú á sér stað er án efa af mannavöldum. Og stefnan er í ranga átt. Án umfangsmikilla aðgerða í nýtingu orku og svæðanýtingu mun losun gróðurhúsalofttegunda halda áfram að aukast og loftslagsbreytingarnar verða meiri", segir Ann-Kristine Johansson (S).

„Við megum ekki láta þetta gerast. Afleiðingarnar fyrir komandi kynslóðir geta orðið hörmulegar. Ég vona að nýja skýrslan verði til þess að koma loftslagssamningum í réttan farveg. Ábyrgð Norrænu ráðherranefndarinnar, sem Svíar fara með formennsku í þetta árið, er hér mikil. Norðurlöndin hvert fyrir sig eru ekki stórir aðilar í hnattrænu samhengi, en ef við vinnum saman getum við aukið áhrif okkar, jafnt innan ESB sem á alþjóðavettvangi", segir Johansson.

Ann-Kristine Johansson hefur einnig áhyggjur af þeirri niðurstöðu skýrslunnar að styrkur Golfstraumsins muni trúlega minnka á næstu öld. Það getur haft mjög neikvæð áhrif á lífsskilyrði á þann hluta Norðurlanda sem nýtur góðs af hlýjum hafstraumum.

Samkvæmt skýrslunni getur meðalhitastig í heiminum hækkað um 5 gráður og yfirborð sjávar hækkað allt að einum metra fyrir lok þessarar aldar. Þetta mun hafa mikil áhrif á norðurskautssvæðið, þar sem hafið verður íslaust með öllu þegar árið 2050.

„Við getum ekki látið komandi kynslóðir einar um að leysa vandann. Með því að bíða veldur alþjóðasamfélagið bara aukinni þjáningu og kostnaði. Ég hvet því ríkisstjórnir Norðurlanda til að sýna kjark og þor vegna barna okkar og barnabarna", segir Ann-Kristine Johansson.

Birt:
28. september 2013
Tilvitnun:
Norden - Norræna ráðherranefndin „Ný skýrsla staðfestir að styrkja þurfi samstarf Norðurlanda við gerð loftslagssamninga “, Náttúran.is: 28. september 2013 URL: http://nature.is/d/2013/09/28/ny-skyrsla-stadfestir/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: