Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) kynnir í dag helstu niðurstöður sínar í Stokkhólmi (Summary for Policy Makers) kl. 10 í Stokkhólmi. Niðurstöður rannsókna þúsunda vísindamanna sem nefndin hefur farið yfir fela í sér afar skýra kosti. Loftslagsbreytingar gerast nú hraðar en áður var talið.

Frá því Vísindanefndin kynnti síðustu skýrslu sína árið 2007 hefur bráðnun jökla aukist mun hraðar en áður var gert ráð fyrir og hækkun yfirborðs sjávar eykst nú hraðar en nokkru sinni fyrr. Útbreiðsla og þykkt íss á norðurskauti jarðar er nú mun minni en gert var ráð fyrir árið 2007 og síðasti áratugur er sá heitasti síðan 1850.

Vísindamenn eru þess fullvissir að verði haldið áfram á sömu braut muni hitabylgjur og flóð í Evrópu valda miklum hörmungum. Einnig mun yfirborð sjávar hækka um allt að einum metra fyrri næstu aldamót og heimhöfin súrna nú hratt vegna síaukinnar losunar koltvísýrings. Afleiðingarnar verða að matarverð mun hækka vegna aukins skorts á matvælum og vannæring verður viðvarandi vandamál. Jafnvel í Evrópu.

Á hinn bóginn hafa vísindamenn fulla trú á að unnt sé að forðast verstu afleiðingar loftslagsbreytinga með því að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda á komandi árum.

Ekki þarf frekar að deila um hvar ábyrgðin liggur. Athafnir mannsins, bruni kola og olíu, hafa orsaka hlýnun andrúmsloftsins sem mælst hefur undanfarana áratugi. Á hinn bóginn er afn víst er að enn er tími til að snúa þessari óheilla þróun við. Verkefni dagsins er að sannfæra ríkisstjórnir heims, þ.m.t. íslensk stjórnvöld – sem skrifa undir niðurstöður skýrslunar – að taka málið föstum tökum. Ríkisstjórn Íslands ber umsvifalaust að aflýsa öllum áformum um borun eftir olíu norðan við Ísland. Annað væri fullkomið ábyrgðarleysi.

Í fyrsta sinn setur Vísindanefndin efri mörk fyrir losun koltvísýrings sem ekki má fara yfir svo takast megi að koma í veg fyrir stjórnlausar og hættulega loftslagsbreytingar. Þar eð skýrsla Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna sýnir að mannkyn hefur þegar farið meira en hálfa leið að því marki sem lífríki jarðar þolir er ljóst að heimurinn verður að draga mjög hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum.

Því miður hefur metnaður Evrópusambandsins – Ísland á fulla aðild að loftslagsstefnu ESB – ekki náð máli undanfarin ár. Það er eindregið krafa evrópskra umhverfisverndarsamtaka að ríki aðildarríki ESB dragi úr losun um 40% fyrir árið 2020, að sett verði skýr markmið fyrir nýtingu endurnýjanlegrar orku, orkusparnað og samdrátt í losun fyrir árið 2030.

Skelfilegar afleiðingar vannæringar, stríðsátaka vegna skorts á matvælum, skógareldar og útrýmingu tegunda eru augljósar afleiðingar

Nokkur atriði:

  • Því er slegið föstu að afleiðingar hlýnunar, sem hingað til hefur verið talin þolanleg, þ.e.a.s. upp að 2°C að meðaltali, verði mun alvarlegri en áður var talið.
  • Hitnun andrúmslofts jarðar mun halda áfram um hundruð ára óháð þeim aðgerðum sem gripið verður til þótt áhrif og afleiðingar loftslagsbreytinga verði minni því fyrr sem dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Síðustu 10 ár hafa verið þau heitustu frá því á miðri 19. öld þegar áreiðanlegar hitamælingar hófust um heim allan. Engu að síður, hækkun hitastigs jarðar hefur ekki aukist jafn hratt síðustu 10 - 15 ár og vísindamenn gerðu ráð fyrir. Þess í stað hafa heimshöfin gleypt stóran hluta þeirrar orku sem aukin gróðurhúsaáhrif hafa valdið og sú hlýnun mun síðar valda frekari hlýnun andrúmsloftsins.
  • Vísindanefndin segir nú að mikil hætta sé á að yfirborð sjávar hækki um nærri 1 metra. Gangi það eftir munu hækkun valda miklum hörmungum fyrir milljónir manna sem byggja strandsvæði jarðar.

Ljósmynd: Gígjökull, ljósm. Árni Tryggvason.

Birt:
27. september 2013
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Ótvíræðar niðurstöður Vísdindanefndar Sameinuðu þjóðanna“, Náttúran.is: 27. september 2013 URL: http://nature.is/d/2013/09/27/otviraedar-nidurstodur-visdindanefndar-sameinudu-t/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: