Umhverfis- og auðlindaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson hefur ákvarðað að veiðidagar rjúpu í ár verði tólf talsins sem skiptast á fjórar helgar á tímabilinu 25. október til 17. nóvember 2013. Leyfileg heildarveiði á rjúpum er 42.000 rjúpur og er miðað við 6-7 fugla á hvern veiðimann. Áfram verður sölubann á rjúpum og er Umhverfisstofnun falið að fylgja því eftir. Að óbreyttum forsendum er lagt til að þetta fyrirkomulag haldist a.m.k. næstu þrjú ár.

Ákvörðunin er byggð á grunni ráðgjafar Náttúrufræðistofnunar Íslands sem unnið hefur vísindalegt mat á stærð veiðistofns rjúpunnar og veiðiþoli hans, og ráðgjafar Umhverfisstofununar um stjórn rjúpaveiðanna.

Rjúpnastofninn er ekki stór um þessar mundir. Þó er stofnmælingin ívið hærri en í fyrra og vísbendingar um að viðkoma stofnsins hafi verið nokkuð góð í sumar.

Stjórnvöld hafa það sem meginstefnu að nýting rjúpnastofnsins skuli vera sjálfbær, sem og annarra lifandi auðlinda. Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin nota. Til að vinna að því eru stundaðar mikilvægar rannsóknir og vöktun á stofninum og síðan rekið stjórnkerfi til að stýra veiðinni að viðmiðum um hvað telst sjálfbær nýting.

Meginþættir veiðistjórnunar á rjúpu hafa verið þrír; 1. sölubann, 2. hvatning um hófsemi og 3. sóknardagar.

  • Sölubann rjúpum virðist hafa skilað árangri. Þannig hefur heildarveiði rjúpu minnkað mikið á undanförnum árum og er orðin meira í samræmi við þau markmið stjórnvalda að nýting rjúpastofnins skuli snúast um hóflega veiði til eigin nota.
  • Hvatning um hófsemi virðist jafnframt hafa skilað árangri. Um það vitna m.a. veiðitölur úr veiðikortakerfinu. Mikilvægt er hins vegar að halda jákvæðri hvatningu um það áfram, en hófsemi við rjúpnaveiðar felst m.a. í þv í að hver veiðimaður veiði ekki fleiri rjúpur en hann þarf eða að jafnaði 6-7 fugla, auk þess að gæta þess að særa ekki fugl umfram veiði og fleiri slík atriði.
  • Leyfilegir sóknardagar hafa undanfarin tvö ár verið 9 og tengdir fjórum helgum. Sóknardagakerfið er mikilvægur þáttur veiðistjórnunarinnar og skapar umgjörð um veiðisóknina.

Tillaga ráðherra varðandi rjúpnaveiðar 2013 er eftirfarandi:

  1. Leyfileg heildarveiði árið 2013 eru 42.000 rjúpur sbr. mat Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli stofnsins.
  2. Sölubann verður á rjúpum. Umhverfisstofnun er falið að fylgja því eftir.
  3. Hófsemi skuli vera í fyrirrúmi: Veiðimenn eru eindregið hvattir til að sýna hófsemi og miða veiðar við 6-7 fugla pr. veiðimann. Jafnframt eru veiðimenn sérstaklega beðnir um að gera hvað þeir geta til að særa ekki fugl umfram það sem þeir veiða m.a. með því að ljúka veiðum áður en rökkvar. Umhverfisstofnun verður falið að  hvetja til hófsemi í veiðum.
  4. Veiðiverndarsvæði verður áfram á SV-landi, líkt og undanfarin ár. Jafnframt verður sett af stað vinna á vegum ráðuneytisins, í samstarfi við helstu hagsmunaðaila, við að kanna hvernig auka megi umfang slíkra svæða.
  5. Fjöldi veiðidaga eru 12 sem skiptast á fjórar helgar:
  • Föstudaginn 25. október til sunnudags 27. október. 3 dagar.
  • Föstudaginn 1. nóvember til sunnudags 3. nóvember. 3 dagar.
  • Föstudaginn 8. n vember til sunnudags 10. nóvember. 3 dagar.
  • Föstudaginn 15. nóvember til sunnudags 17. nóvember. 3 dagar.

Fyrirsjáanleiki. Lagt er til að þetta fyrirkomulag gildi áfram, þ.e. komi ekki eitthvað óvænt uppá í árlegri mælingu og rannsóknum á rjúpnastofninum eða umbætur í stjórnkerfi veiðanna, er gert ráð fyrir að fyrirkomulag veiðanna verði með þessum hætti amk. næstu þrjú ár.

Þetta fyrirkomulag er á svipuðum grunni og í fyrra, en þó er reynt að gera fyrirkomulagið skýrara og fyrirsjánlegra. Í fyrra var leyft að veiða fjórar helgar, bæði 2 og 3 daga og einnig var veiði ekki heimiluð eina helgi innan tímabilsins. Með þessu fyrirkomulagi sem nú er boðað eru fyrirmælin skýrari, leyft er að veiða fjórar helgar samfellt, frá föstudegi til sunnudags.
Almennt um stjórn veiðanna

Í ráðgjöf Umhverfisstofnunar nú í ár er fjallað sérstaklega um sóknardagana, og færð rök fyrir því að svo fáir dagar hafi ekki mikil áhrif til sóknarstýringar þar sem flestir veiðimenn fari færri en 4 daga til veiða, auk þess sem mikið álag verði á veiðislóð þessa daga. Það geti svo aftur haft áhrif á öryggi veiðimanna og atferli. Stofnunin leggur því áherslu að sóknardögum verði fjölgað.

Í ráðgjöf Náttúrufræðistofnunar um mat á stærð veiðistofns og veiðiþoli er dregið skýrt fram að óvissa sé enn veruleg tengd sk. viðbótarafföllum, sem ekki eru að fullu skýrð. Til að treysta betur setningu viðmiða um sjálfbæra nýtingu stofnsins þarf að vinna við að  skýra  orsakir þeirra frekar.

 Meðan svo er telur ráðuneytið ekki ábyrgt að veiðidögum verði fjölgað verulega, en leggur til einfaldara sóknardagafyrirkomulag en verið hefur undanfarin ár og smávægilega fjölgun þeirra til samræmis við ábendingar Umhverfisstofnunar.

Ráðuneytið hyggst vinna að styrkingu stjórnunar rjúpnaveiðanna og skoðun á umbótum á sóknardagakerfinu. Liður í því verður að kanna betur tækifæri á auknum veiðiverndarsvæðum fyrir rjúpu og eins því hvort stuðla megi að svæðisbundinni stjórn veiðanna, líkt og þekkist meðal annars í nágrannalöndum.

Veiðimenn eru hvattir til góðrar umgengi um landið.

Ljósmynd: Rjúpa, db.

Birt:
25. september 2013
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Fyrirkomulag rjúpnaveiða 2013 – hófsemi í fyrirrúmi“, Náttúran.is: 25. september 2013 URL: http://nature.is/d/2013/09/25/fyrirkomulag-rjupnaveida-2013-hofsemi-i-fyrirrumi/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: