Sigurður Ingi hefur ákveðið að afturkalla lög um náttúruvernd
Í frétt á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins segir frá í dag segir:
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að afturkalla lög um náttúruvernd nr. 60/2013 sem voru samþykkt á Alþingi rétt fyrir þinglok í vor. Lögum þessum var ætlað að taka gildi 1. apríl 2014.
Ráðherra hefur ákveðið að leggja fram frumvarp á Alþingi þegar þing kemur saman í haust með tillögu um að fella úr gildi hin nýju náttúruverndarlög nr. 60/2013, sem annars tækju gildi 1. apríl 2014. Verði það frumvarp samþykkt á Alþingi verður í raun engin breyting heldur munu núgildandi náttúruverndarlög nr. 44/1999 halda áfram gildi sínu. Hyggst ráðherra jafnframt fela umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að hefja endurskoðun á náttúruverndarlögunum með það að markmiði að styrkja stöðu náttúruverndar og ná um þau sátt. Gert er ráð fyrir að nýtt frumvarp til náttúruverndarlaga verði lagt fram til umfjöllunar Alþingis, þegar framangreindri vinnu er lokið. Við þá vinnu verður m.a. stuðst við þær fjöldamörgu athugasemdir sem liggja fyrir frá vinnunni við frumvarpið sl. vetur, auk þess sem haft verður samráð við hagsmunaaðila.
Ljóst er að huga þarf nánar að veigamiklum atriðum vegna vinnu við gerð nýs frumvarps til laga um náttúruvernd, eins og kom fram í umfjöllun um frumvarp til nýrra náttúruverndarlaga sl. vetur. Hér er um ýmis grundvallaratriði að ræða enda afar mikilvægt að ný náttúruverndarlög feli í sér skýrar skyldur og jafnframt skýra framkvæmd, náttúruvernd til hagsbóta. Er ekki síður mikilvægt að slíkar breytingar séu unnar í sem víðtækastri sátt við haghafa og almenning.
Tilvitnun lýkur.
Það má koma hér fram að ákvörðun um afturköllun laga er ekki á valdi einstakra ráðherra heldur Alþingis Íslendinga.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Sigurður Ingi hefur ákveðið að afturkalla lög um náttúruvernd“, Náttúran.is: 24. september 2013 URL: http://nature.is/d/2013/09/24/sigurdur-ingi-afturkallar-log-um-natturuvernd-aftu/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.