Goðsagnir um sjálfbæra neyslu hraktar
Norrænn vinnuhópur um sjálfbæra neyslu hefur skilað af sér skýrslunni „Bætt stefnumörkun og ákvarðanataka á Norðurlöndum ef goðsagnir um sjálfbæra neyslu eru hraktar". Vinnuhópurinn er á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar en samhliða útgáfunni kemur út samantekt yfir stefnu Norðurlandanna á þessu sviði, þar sem m.a. er fjallað um tíu goðsagnir eða misskilning um sjálfbæra neyslu.
Í skýrslunni er m.a. bent á að markmið Norðurlanda um að vera leiðandi í sjálfbærri þróun séu óraunhæf þegar ákvörðunartaka byggir á misskilningi um sjálfbæra neyslu fremur en niðurstöðum atferlis- og félagsrannsókna. Þetta endurspeglast í þeirri staðreynd að vistspor Norðurlandabúa eru með þeim stærstu í heiminum sé miðað við höfðatölu.
Ein þeirra goðsagna sem fjallað er um í skýrslunni er sú staðhæfing að ef allir leggjasvolítið af mörkum muni það skila miklum árangri. Vissulega eru smábreytingar mikilvæg byrjun. Raunveruleg þáttaskil verða þó ekki fyrr en fólk tileinkar sér ný félagsleg viðmið. Mikilvægt er að undirstrika að stærri breytinga er einnig þörf, samhliða þeim litlu. Brýnt er að veita jákvæða hvatningu og gefa raunsæja mynd af því hverjar breytingarnar eru. Um leið og stjórnvöld og félagasamtök benda á mikilvægi smábreytinga í daglegu lífi einstaklinga verða þau að halda því á lofti að einnig sé þörf á stærri breytingum þar sem einstaklingar geta lagt sitt af mörkum.
Aðalskýrslan kemur út bæði á sænsku og ensku en samantektin er gefin út á íslensku, sænsku, dönsku og ensku.
Samantektin: Stutt yfirlit yfir norræna stefnumótun
Skýrslan (sænsk útgáfa): Förbättra nordiskt beslutsfattande genom att skingra myter om hållbar konsumtion
Skýrslan (ensk útgáfa): Improving Nordic policymaking by dispelling myths on sustainable consumption
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Goðsagnir um sjálfbæra neyslu hraktar“, Náttúran.is: 20. september 2013 URL: http://nature.is/d/2013/09/20/godsagnir-um-sjalfbaera-neyslu-hraktar/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.