Minnisvarði til minningar um Má Haraldsson, bónda í Háholti, oddvita og fjallkóng verður afhjúpaður sunnudaginn 22. september kl. 16.00. Minnisvarðanum hefur verið valinn staður við bílveginn yfir Lönguhlíð skammt innan við sæluhúsið í Gljúfurleit en þar á háöldunni sér inn til jökla og fjalla. Það er Ferðafélag Íslands sem hefur forgöngu um gerð minnisvarðans í samráði við fjölskyldu Más heitins og ber félagið allan kostnað við framkvæmdir en sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps veitti góðfúslega leyfi fyrir að reistur yrði minnisvarða til minningar um Má heitinn. Með þessu vill Ferðafélag Íslands minnast þessa merka og víðsýna manns og baráttu hans fyrir verndun Þjórsárvera.

Sunnudagurinn 22. september er valinn vegna þess að þá eru eftirsafnssmalar í Gljúfurleit og geta vonandi verðið vistaddir þessa stuttu athöfn. Að henni lokinni er öllum viðstöddum boðnar veitingar í skálnum í Gljúfurleit. Allir eru velkomnir þangað og jafnframt að minnisvarðanum þegar hann verður afhjúpaður.

Þeir eru fáir sem íslensk náttúruverndarhreyfing á jafn mikið að þakka og Má Haraldssyni. Þessi trausti maður valdist til forystu meðal Gnúpverja og í því hlutverki stóð hann vörð um Þjórsárver - þann fjársjóð sem Gnúpverjar hafa varið áratugum saman. Undir forystu Más Haraldssonar náðist sá árangur að umdeilt Norðlingaölduveitulón á ekki að skerða friðlandið í Þjórsárverum. Án hans hefði sá árangur ekki náðst.

Már beitti skynsemisrökum. Hann skildi taflið og hugsaði marga leiki fram í tímann. Forystuhæfileikar hans komu ekki síst fram í því að hann gætti þess jafnan að í litlu sveitarfélagi verður að taka ríkt tillit til þeirra sem ekki eru á sama máli og meirihlutinn. Þeim mun trúverðugri var barátta hans fyrir verndun Þjórsárvera.

Birt:
18. september 2013
Tilvitnun:
Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Íslands „Minnisvarði til minningar um Má Haraldsson reistur í Gljúfurleit“, Náttúran.is: 18. september 2013 URL: http://nature.is/d/2013/09/18/minnisvardi-til-minningar-um-ma-haraldsson-reistur/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: