Verðlaunahafar á Degi íslenskrar náttúru
Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra ásamt verðlaunahöfunum, Vigdísi Finnbogadóttur og Páli Steingrímssyni.
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, veitti í dag í tilefni af Degi íslenskrar náttúru, Páli Steingrímssyni, kvikmyndagerðarmanni, fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Við sama tækifæri veitti hann Vigdísi Finnbogadóttur, Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti.
Tilnefndir til fjölmiðlaverðlaunanna voru:
- Guðbjörg Gissurardóttir, ritstjóri tímaritsins Í boði náttúrunnar fyrir vandað og fallegt tímarit sem m.a. hefur að augnmiði að færa náttúruna nær fólki.
- Páll Steingrímsson, kvikmyndagerðarmaður, fyrir heimildamyndagerð sína þar sem megináhersla hans hefur verið á náttúrulífsmyndir.
- Svavar Hávarðsson, blaðamaður á Fréttablaðinu, fyrir víðtæk og fjölbreytt skrif og fréttaskýringar um náttúruverndarmál.
Í rökstuðningi dómnefndar fjölmiðlaverðlauna segir:
Páll Steingrímsson Heimildamyndir Páls Steingrímssonar skipta mörgum tugum frá Vestmannaeyjagosinu 1973 og fram á þennan dag. Megináhersla hans hefur verið á náttúrulífsmyndir, svo sem fuglasögurnar sem hann hefur fengist við hin síðustu ár, og áhrif manna á umhverfið. Starf Páls að fræðslu og vernd íslenskrar náttúru er langt og farsælt og hefur borið hróður hans og landsins um heimsbyggðina. Páll hefur enda hlotið viðurkenningar bæði hér á landi og erlendis fyrir störf sín, m.a. heiðursverðlaun Eddu.
Í rökstuðningi ráðherra vegna Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti segir:
Vigdís Finnbogadóttir hefur í gegn um tíðina lagt áherslu á landgræðslu, skógrækt og náttúruvernd og hefur hún veitt þessum málefnum ómetanlegan stuðning með því að halda þeim á lofti á opinberum vettvangi. Hún hefur hvatt þjóð sína til að huga að uppeldislegu gildi þess að kenna börnum ræktun og að vernda náttúruna. Hún hefur líkt jarðyrkju við uppeldi barna og sagt að ræktun landsins sé nátengd mannyrkju. Þá lagði Vigdís í forsetatíð sinni mikla áherslu á að græða upp landið og gróðursetja tré. Skógræktarfélag Íslands stofnaði árið 1990, henni til heiðurs og gleði, Vinaskóg í landi Kárastaða við Þingvelli. Hún hefur sameinað þjóð sína, ýtt undir virðingu hennar fyrir íslenskri náttúru, tungu og menningu og þannig verið þjóðinni góður uppalandi.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar Páli Steingrímssyni og Vigdísi Finnbogadóttur innilega til hamingju.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Verðlaunahafar á Degi íslenskrar náttúru“, Náttúran.is: 16. september 2013 URL: http://nature.is/d/2013/09/16/verdlaunahafar-degi-islenskrar-natturu/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.