Degi íslenskrar náttúru fagnað um allt land
Örnefni, stjörnur, náttúruljóð, jarðfræði, jurtalitun, útikennsluapp, laxalíf, skipulagsuppdrættir, náttúruratleikur og kvikmyndafrumsýning er meðal þess sem almenningi gefst kostur á að kynna sér og njóta á Degi íslenskrar náttúru, sem fagnað verður um allt land á mánudag, 16. september.
Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra mun í tilefni dagsins veita fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti á sérstakri hátíðarsamkomu við Elliðavatnsbæinn sem hefst klukkan 13:30 á mánudag.
Eftirtaldir eru tilnefndir til Fjölmiðlaverðlaunanna nú:
- Guðbjörg Gissurardóttir, ritstjóri tímaritsins Í boði náttúrunnar
- Páll Steingrímsson, kvikmyndagerðarmaður
- Svavar Hávarðsson, blaðamaður á Fréttablaðinu
Sjá nánar um tilnefningarnar hér.
Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti er veitt einstaklingi sem hefur unnið markvert starf á sviði náttúruverndar.
Fjölbreytt dagskrá
Meðal annarra viðburða má nefna að ÍSOR (Íslenskar orkurannsóknir) bjóða til jarðfræðigöngu um Búrfellsgjá og Búrfell. Á leiðinni verður rýnt í jarðfræðina með aðstoð nýútkomins jarðfræðikorts af Suðvesturlandi þar sem hraun, sprungur, misgengi, grunnvatn og mannvistarleifar koma við sögu. Landmælingar Íslands bjóða til örnefnagöngu á Akranesi og á sunnanverðum Vestfjörðum býður sérfræðingur Umhverfisstofnunar til göngu um Surtarbrandsgil. Þá býður Náttúrustofa Austurlands og Fjarðabyggð upp á fjölskyldugöngu um Hólmanes og á Mývatni verður ný gönguleið frá Dimmuborgum opnuð.
Víða verða söfn opin almenningi og má þar nefna Náttúrugripasafnið í Neskaupstað, Surtseyjarstofu í Vestmannaeyjum og Sagnagarð fræðslu- og kynningarsetur Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti. Þá býður Náttúrustofa Suðausturlands til stjörnuskoðunar í stjörnuverinu í Nýheimum á Höfn.
Grænfánar verða einnig afhentir á Degi íslenskrar náttúru; í Hjallastefnuleikskólanum Velli í Reykjanesbæ og í Háskólanum á Akureyri sem þar með verður fyrstur íslenskrar háskóla að fá Grænfánann.
Saga Mývatns verður rakin í fyrirlestri forstöðumanns RAMÝ og Skipulagsstofnun verður með opið hús og leiðsögn Péturs H. Ármannssonar arkitekts um gamla skipulagsuppdrætti.
Veiðimálastofnun býður upp á stutta kynningu á lífríki vatnsins á tveimur stöðum á landinu, umhverfisnefnd Garðabæjar býður upp á fuglaskoðun í friðlandi Vífilsstaðavatns og umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur býður til náttúruskoðunar í Öskjuhlíð undir yfirskriftinni „Lífríkið er allt um kring".
Loks má nefna að afmælisbarn dagsins, Ómar Ragnarsson, frumsýnir þrjár kvikmyndir í Bíó Paradís: Heimilda- og fræðslumyndina „Akstur í óbyggðum“ og tvö tónlistarmyndbönd.
Ítarlega dagskrá Dags íslenskrar náttúru er að finna á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á slóðinni: http://www.umhverfisraduneyti.is/dagur-islenskrar-natturu-2013/dagskra.
Ljósmynd: Mosi og tjörn í Þjórsárverum. Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Degi íslenskrar náttúru fagnað um allt land“, Náttúran.is: 16. september 2013 URL: http://nature.is/d/2013/09/13/degi-islenskrar-natturu-fagnad-um-allt-land/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 13. september 2013
breytt: 16. september 2013