Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands, haldinn í Reykjavikur Akademíunni þann 9. september 2013, skorar á umhverfisráðherra að fara að niðurstöðum Rammaáætlunar, að vinna í samræmi við gildandi lög um rammaáætlun og undirrita þegar í stað fyrirliggjandi friðlýsingarskilmála vegna stækkunar friðlandsins í Þjórsárverum.

Hvers kyns áform um Norðlingaölduveitu jafngilda stórtækum breytingum á rammaáætlun. Ætli ríkisstjórnin að fara þessa leið er engin sátt lengur um rammaáætlun.

Komist Landsvirkjun í Þjórsárver - þrátt fyrir niðurstöðu rammaáætlunar og þrátt fyrir lög um rammaáætlun - mun Landsvirkjun ráðast í stækkun Norðlingaölduveitu við fyrsta tækifæri.

Náttúruverndarsamtök Íslands hvetja alla náttúruunnendur til að sameinast gegn þessum áformum ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunar og standa vörð um þetta einstaka og dýrmæta svæði á hálendi Íslands.

Greinargerð:
Samkvæmt 6 gr. laga um rammaáætlun er stjórnvöldum

    ... ekki heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum eða orkuvinnslu vegna virkjunarkosta sem eru í verndarflokki eða eru á svæðum sem ástæða er talin til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu. Þá eru aðrar orkurannsóknir sem ekki eru leyfisskyldar einnig óheimilar.

Ennfremur, lögin kveða skýrt á um að stjórnvöldum beri að

    ... hefja undirbúning að friðlýsingu landsvæða sem ástæða þykir til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki áætlunarinnar.

Norðlingaölduveita lenti í verndarflokki rammaáætlunar á grundvelli þeirra náttúruverðmæta sem eru vestan Þjórsár og eru ósnortin (ekki vegna áhrifa virkjunarinnar á nánasta umhverfi líkt og Landsvirkjun heldur fram). Þjórsárver fengu hæstu einkunn allra svæða vegna verndargildis þeirra og þess vegna var ekki talið verjandi að leyfa framkvæmdir á svæðinu og Þjórsárver ná vestur í Kjálkaver.

Norðlingaölduveita eins og hún var hugsuð og eins og hún er hugsuð myndi rjúfa víðernin vestan Þjórsár. Ennfremur, brýtur hún gegn ákvæðum náttúruverndaráætlunar 2008 - 2013.

Ljósmynd: Úr Þjórsárverum, Chiara Ferrari Melillo.

Birt:
10. september 2013
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Ályktun aðalfundar Náttúruverndarsamtaka Íslands um Þjórsárver“, Náttúran.is: 10. september 2013 URL: http://nature.is/d/2013/09/10/alyktun-adalfundar-natturuverndarsamtaka-islands-u/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: