Miðvikudaginn 17. júlí stendur Umhverfisvaktin við Hvalfjörð fyrir sýningu heimildarmyndarinnar Krýsuvík - Náttúrufórnir í fólkvangi eftir Ellert Grétarsson.
Sýningin hefst klukkan 20.00 að Hjalla í Kjós og er aðgangur ókeypis. Léttar veitingar verða til sölu á staðnum. Myndin er 30 mínútur að lengd og mun Ellert segja í stuttu máli frá gerð hennar áður en sýningin hefst og svara spurningum að henni lokinni.

Krýsuvík er innan Reykjanesfólkvangs og er eitt vinsælasta útivistarsvæðið í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Til stendur að fórna þessu svæði undir orkuvinnslu sem hafa mun gríðarleg áhrif á ásýnd þessarar náttúruperlu og um leið eyðileggja gildi hennar fyrir útivist og ferðamennsku.

Í þessari heimildamynd Ellerts Grétarssonar, náttúruljósmyndara, er fjallað um Krýsuvíkursvæðið, sögu þess og jarðfræði. Varpað er ljósi á þau virkjanaáform sem uppi eru á svæðinu og hvaða áhrif þau munu hafa.

Ellert hefur ljósmyndað svæðið á ótal gönguferðum sínum undanfarin ár og kynnt sér vel náttúru þess. Í myndinni er brugðið upp fjölda mynda Ellerts af náttúruperlum svæðisins, sagt frá vinsælum gönguleiðum og fleiru áhugaverðu.

Allir velkomnir – aðgangur ókeypis!

Birt:
14. júlí 2013
Tilvitnun:
Ragnheiður Þorgrímsdóttir „Kvikmyndasýning að Hjalla í KJós“, Náttúran.is: 14. júlí 2013 URL: http://nature.is/d/2013/07/14/kvikmyndasyning-ad-hjalla-i-kjos/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: