Hjólafærni á Íslandi og Hugarflug hafa nú lokið við 1. útgáfu af reiðhjólaþjónustukorti fyrir Ísland með aðgengilegum upplýsingum um reiðhjólaþjónustu á Íslandi. Kortið er á ensku.

Rétt tæplega 100 aðilar um allt land koma við sögu í kortinu, aðilar sem eru tilbúnir að rétta hjólreiðamönnum hjálparhönd. Á kortinu eru upplýsingar um alla þekkta hjólaþjónustu, sundlaugar og þjónustustöðvar, Farfuglaheimilin, gagnlegar síður eins og; veður, færð vega, samgöngukerfin, tjaldstæði og upplýsingamiðstöðvar svo eitthvað sé nefnt.

Á bakhlið hjólaþjónustkortsins er annað kort og ekki minna merkilegt. Það sýnir allar almenningssamgöngur á Íslandi á einum stað. Þetta er fyrsta kort sinnar tegundar á landinu. Allt um strætó um allt land, ferjur og flug innanlands.

Kortið er prentað í 30.000 eintökum og er dreift frítt um landið sumarið 2013. 

Það er sívaxandi hópur á Íslandi sem langar að hlúa að góðri hjólaferðamennsku í landinu, sem mun örugglega um síðir skila sér í efldum áhuga innlendra á að ferðast hjólandi um landið í meira mæli en nú er auk þess að freista fleiri erlenda ferðamenn til að koma og hjóla á Íslandi. Umhverfisvænni verður varla ferðamátinn.

Umhverfisráðuneytið, Vegagerðin og Ferðamálastofa eru á meðal bakhjarla þessa verkefnis.

Kortið er aðgengilegt hér til hægri á síðunni með því að smella á kubbinn „Cycling Iceland 2013“.

Birt:
11. júlí 2013
Tilvitnun:
Sesselja Traustadóttir „Nýtt kort um þjónustu fyrir hjólandi og almenningssamgöngur landsins“, Náttúran.is: 11. júlí 2013 URL: http://nature.is/d/2013/07/11/nytt-kort-um-thjonustu-fyrir-hjolandi-og-almenning/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: