Fjölbreytt dagskrá er í boði fyrir alla fjölskylduna í Grasagarði Reykjavíkur í sumar.

Föstudagur 5. júlí kl. 15

Hús fyrir lús – listasýning í matjurtagarðinum
Í vikunni hafa skemmtilegir 10-12 ára krakkar sótt listasmiðjuna Hús fyrir lús í Grasagarðinum. Í dag, föstudaginn 5. júlí, opna þau sýningu á verkum sínum í matjurtagarðinum kl. 15. Verkin endurspegla tegundir, hlutverk og heimkynni jarðvegsdýra og mikilvægi þeirra fyrir allt sem lifir ofanjarðar og voru unnin með leiðsögn Guðrúnar Gísladóttur, garðyrkjufræðings og listgreinakennara og Guðnýjar Rúnarsdóttur listgreinakennara. Ef veður leyfir mun sýningin standa fram á mánudag.

Sunnudagur 7. júlí

Íslenski safnadagurinn
Grasagarðurinn er lifandi safn undir berum himni og í garðinum eru varðveittar um 5000 plöntur í 9 safndeildum. Á íslenska safnadeginum eru gestir hvattir til að skoða safnkostinn og njóta þeirrar afþreyingar sem garðurinn hefur upp á að bjóða. Upplýsingabæklinga er að finna í anddyri garðskálans.

Íslenski safnadagurinn er árlegur viðburður sem söfn um land allt taka þátt í og mörg bjóða upp á sérstaka dagskrá í tilefni hans. Sjá nánar safnmenn.is .

Lokahelgi ljósmyndasýningarinnar .is í Café Flóru
Pólski ljósmyndarinn Marta Niebieszczanska sýnir ljósmyndir af íslenskri náttúru sem teknar eru með sígildum aðferðum á filmu og camera obscura. Sýningin er opin á opnunartíma Café Flóru kl. 10-22.
 
Mánudagur 8. júlí kl. 17

Smádýrin í garðinum
Skordýr og önnur smádýr leynast víða í gróskumiklum Grasagarðinum. Í rannsóknarleiðangri fyrir alla fjölskylduna kynnast þátttakendur smádýralífinu í garðinum. Gestir eru hvattir til að taka með sér stækkunargler og krukku. Um leiðsögn sér Guðmundur Halldórsson skordýrafræðingur.
Sjá mynd í viðhengi.

Leiðsagnir um garðinn alla föstudaga kl.13 í sumar
Föstudagsleiðsögn um Grasagarðinn er alla föstudaga í sumar kl. 13. Gengið er um gróskumiklar safndeildir garðsins í um 45 mínútur. Tegundir í blóma skoðaðar sérstaklega. Fjallað um upphaf og þróun garðsins sem og starfsemi hans í dag. Skemmtilegar sögur og lítil leyndarmál.

Verið velkomin í Grasagarðinn!

Ljósmyndir: Efst; Svartþröstur í Grasagarðinum. Næstefst; Gestir við Café Flóru. Neðst; Gestir skoða íslensku flóruna. Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
5. júlí 2013
Tilvitnun:
Hildur Arna Gunnarsdóttir „Viðburðaríkir dagar framundan í Grasagarði Reykjavíkur“, Náttúran.is: 5. júlí 2013 URL: http://nature.is/d/2013/07/05/vidburdarikir-dagar-framundan-i-grasagardi-reykjav/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: