Sveitamarkaðurinn í Eyjafjarðarsveit hefur nú göngu sína áttunda sumarið.
Markaðurinn er eins og áður á blómum prýddu torgi Gömlu garðyrkjustöðvarinnar við Jólagarðinn.

Óhætt er að segja að á markaðinum sé fjölbreyttur varningur í boði. Má þar nefna brodd, brauð og kökur af ýmsu tagi, sultur og saftir svo eitthvað sé nefnt. Einnig allskonar handverk svo sem prjónavörur, þæfða ull, vörur úr mokkaskinni, dúkkuföt, skartgripi og ótal margt annað.
Notalegt er að setjast niður og gæða sér á nýbökuðum vöfflum með rabarabarasultu beint úr pottinum og rjúkandi kaffi.

Seljendur eru flestir heimamenn og úr nágrannasveitum eða hagleiksfólk sem á leið um og staldrar við með vöru sína. Þetta skapar skemmtilega fjölbreytni sem markaðurinn er þekktur fyrir.

Samstarfshópurinn Fimmgangur heldur utan um sveitamarkaðinn og leggur mikið upp úr að varningurinn sem boðinn er sé heimaunninn eða falli vel að umhverfinu og sveitalífinu.
Fyrsti markaður sumarsins verður 14. júlí og svo alla sunnudaga í sumar til og með 18. ágúst. Sveitamarkaðurinn er opinn frá kl. 11 til 17.

Birt:
4. júlí 2013
Tilvitnun:
Berghildur Ólafsdóttir „Sveitamarkaðurinn í Eyjafjarðarsveit“, Náttúran.is: 4. júlí 2013 URL: http://nature.is/d/2013/07/04/sveitamarkadurinn-i-eyjafjardarsveit/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: