Ríkisstjórn samþykkir fjárveitingu til Rammaáætlunar
Ríkisstjórn Íslands samþykkti í dag 40 milljóna króna fjárveitingu til vinnu við 3. áfanga áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða (Rammaáætlun) fyrir árið 2013. Verkefnisstjórn hefur þegar tekið til starfa og er áætlað að hún skili stöðuskýrslu til umhverfis- og auðlindaráðherra í mars á næsta ári.
Verkefnisstjórn hefur það hlutverk að vinna drög að tillögum um flokkun virkjunarhugmynda og afmörkun virkjunar- og verndarsvæða. Tillögurnar byggir hún á niðurstöðum faghópa, samráði við haghafa og umsögnum almennings.
Lögð hefur verið áhersla á það við formann verkefnisstjórnar að fagleg vinna verkefnisstjórnar haldi áfram eins og lagt hefur verið upp, svo og þeirra faghópa sem hún skipar. Í forgang fari þeir orkukostir sem fjallað er um í 12. kafla álits meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar frá nóvember 2012. Þar sem verkefnisstjórn er ætlað að skila stöðuskýrslu í mars 2014 er mikilvægt að undirbúningsvinna og rannsóknir hefjist nú þegar.
Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða var samþykkt á Alþingi í janúar 2013 og er vinnulag verkefnisstjórnar í samræmi við lög um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða nr. 48/2011.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Ríkisstjórn samþykkir fjárveitingu til Rammaáætlunar“, Náttúran.is: 2. júlí 2013 URL: http://nature.is/d/2013/07/02/rikisstjorn-samthykkir-fjarveitingu-til-rammaaaetl/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.