Vistrækt fyrir alla - Áhugavert námskeið í ágúst
Hugtakið vistmenning eða vistrækt (e. Permaculture) hefur undanfarin ár komist inn í umræðu um sjálfbæra ræktun og lífsstíl. Í ágúst kemur hingað til lands virtur vistræktandi og kennari, Penny Livingston-Stark, og mun hún halda námskeið fyrir áhugasama núverandi og verðandi vistræktendur.
Vistmenning eða vistrækt er tilraun til þýðingar á enska hugtakinu permaculture, sem á uppruna sinn í hugmyndafræði áströlsku náttúruunnendanna Bill Mollison og David Holmgren. Hugtakið felur í sér alhliða viðleitni til sjálfbærrar þróunar, hollustu við náttúruna og skilning á heildaráhrifum allra gjörða.
Vistmenning er aðferðarfræði sem gerir öllum kleift að virða náttúrulegt umhverfi og nýta vistvænar aðferðir sem létta á umhverfisvandamálum samtímans. Með hugmyndafræði vistmenningar til grundvallar getur hver sem er framleitt eigin matvæli, en hún felur venjulega í sér lífræna ræktun og búskap og á bæði við í þéttbýli sem og dreifbýli. Vistmenning byggir á þremur siðareglum: Að virða jörðina, láta sig samfélag sitt varða að takmarka ósjálfbæra neyslu og reyna eftir fremsta megni að endurnýta það sem til fellur aftur inn í náttúruleg kerfi.
Heildræn sýn
Vistmenning er heildræn hönnunarvísindi samofin náttúrulegum kerfum. Í því felst að fylgjast með náttúrunni og læra af henni, vinna með henni og lifa í sátt við náttúruleg vistkerfi. Verklegi þáttur vistmenningar miðar að því að finna úrræði til að þróa og bæta umhverfið til lengri tíma í stað þess að ganga á þær auðlindir sem nærumhverfið býr yfir og byggir á.
Náttúran vinnur á stórkostlegan hátt með endurnýtingu og fullnýtingu allra sinna hráefna. Náttúran er falleg samvinna þar sem lífverur og náttúruöfl mynda hringrás efnaskipta. Ekkert er úrgangur eða sorp, allt hefur hlutverki að gegna. Afraksturinn kallast uppskera og hana geta lífverur fært sér í nyt.
Engum blöðum er um það að fletta að skert matvælaöryggi er stærsta ógn við tilveru mannsins nú á dögum en talið er að um 870 milljónir manna lifi við stöðugt hungur vegna matvælaskorts. Miðað við eyðileggingu á náttúruauðlindum og fæðuógn heimsins virðist maðurinn ekki hafa gengist við samvinnuverkefni náttúrunnar síðustu áratugina. Eitt stærsta inngripið er einhæf ræktun og verksmiðjubúskapur.
Fjölbreytt samrækt sem inniheldur margs konar tegundir nytjajurta er eitt af aðalsmerkjum vistmenningar. Hún er í raun andsvar við stórtækum og einhæfum iðnaðarlandbúnað. Með samrækt má viðhalda fjölbreyttu kjörlendi og umhverfi, stuðla að vistfræðilegri virkni og náttúrulegri endurnýjun.
Fjölbreyttir möguleikar á Íslandi
Um allan heim eru starfrækt þorp og búgarðar sem byggja á hugmyndafræði vistmenningar. Einnig hefur hún sem vísindagrein ratað í háskóla og hægt er að nema hana báðum megin Atlandshafsins. Þá eru haldin námskeið og vinnufundir til að kynna og gefa innsýn inn í gagnlegar aðferðir við iðkun vistmenningar.
Hér á landi hefur hugmyndafræðin ekki verið áberandi sem slík. Áhugasamir Íslendingar hafa verið iðnir við að sækja sér þekkingar víða um heim og eru í smáum stíl að aðlaga vistmenningu íslenskum forsendum, náttúruskilyrðum og samfélagi. Þannig voru á árunum 1997-1999 haldin vistmenningarnámsskeið þar sem Graham Bell var aðalkennari og fleiri komu við sögu. Þá hefur Ólafur R. Dýrmundsson hjá Bændasamtökum Íslands vikið að vistmenningu í tengslum við leiðbeiningar um lífrænan búskap um tuttugu ára skeið.
Möguleikarnir eru fjölmargir fyrir okkur, bæði náttúru og samfélag. Við búum að tiltölulega ódýrum og hreinum orkuauðlindum og veðurfarið býður upp á spennandi nálgun að vistmenningu. Við þurfum ekki að leita langt, í brjóstviti forfeðrana bjuggu aðferðir sem auðveldlega væri hægt að fella undir hugmyndafræði vistmenningar. Samfélagið er lítið, tengslin náin og sýna dæmin að sameiningakrafturinn er sterkur. Nú er vissulega kominn tími til að kenna hvernig vistmenning fellur best að íslenskum aðstæðum.
Námsskeið og fræðsla í ágúst
Það er því fagnaðarefni að nú í ágúst mun bandaríski vistræktandinn Penny Livingston-Stark halda eitt slíkt námsskeið hérlendis, dagana 16. – 18. ágúst. Gefst áhugasömum þar tækifæri til að kynna sér vistmenningu enn frekar.
Penny Livingston-Stark hefur unnið á sviði vistræktar í 25 ár og hefur víðtæka reynslu sem bæði kennari og hönnuður og spannar sérhæfing hennar vítt svið: Samþætting landslags, söfnun regnvatns, skipulagning ætigarða, lyfjagarða og fjölærra garða, vatnsrækt, þróun búsvæða og samvinnubúa, svo eitthvað sé nefnt.
Þann 16. ágúst kl. 18-22 verður kynningarkvöld í Norræna húsinu. Þar mun Penny kynna hugmyndafræðina á heildrænan hátt og með fjölbreyttri nálgun hennar við náttúru og samfélag. Í kjölfarið verður haldið helgarnámskeið þar sem m.a. verða kenndar gagnlegar aðferðir við vistmenningu í gróðurhúsum og görðum. Áhugasamir geta skráð sig á námskeiðið með því að senda tölvupóst á netfangið permaculture@simnet.is.
Sjá Facebookviðburð námskeiðsins.
Ljósmynd: Gulrætuuppskeru haldið á lofti. Einar Bergmundur.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Hulda Pálsdóttir „Vistrækt fyrir alla - Áhugavert námskeið í ágúst“, Náttúran.is: 27. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2013/06/27/vistraekt-fyrir-alla-ahugavert-namskeid-i-agust/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.